Skjálftinn öflugri en talið var

Farið var með sært fólk á sjúkrahús í Pakistan eftir …
Farið var með sært fólk á sjúkrahús í Pakistan eftir jarðskjálftann. AFP

Einn er látinn og minnst 50 eru særðir eftir öflugan jarðskjálfta sem skók norðaust­urhluta Af­gan­ist­an í gærkvöldi skammt frá landa­mær­un­um að Pak­ist­an og Tadsjikist­an. Gerðist þetta um miðnætti að staðartíma.

Í fyrstu var greint frá því að jarðskjálftinn hefði verið 6,2 stig en hann er nú sagður hafa verið 6,3 stig. Eru það mælingar frá Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna (USGS) sem staðfesta þetta.

Fréttaveita AFP greinir frá því að kona og ófætt barn hennar hafi látið lífið þegar hús hrundi í borginni Peshawar í Pakistan. Minnst 50 eru sagðir vera særðir í borginni eftir jarðskjálftann.

Í héraðinu Badakhshan í Afganistan eru minnst 45 hús sögð skemmd og 12 eru sagðir særðir í héraðinu Nangarhar. Erfiðlega hefur gengið að fá fregnir frá ýmsum svæðum í Afganistan sökum mikillar einangrunar og slæms sambands.

AFP seg­ir skjálft­ann hafa átt upp­tök sín á 203,5 kíló­metra dýpi um 280 kíló­metra norðaust­an við höfuðborg­ina Kabúl um klukk­an 19:14 að ís­lensk­um tíma.

Jarðskjálft­ar verða reglu­lega í Af­gan­ist­an, sér­stak­lega í Hindu Kush-fjall­g­arðinum sem ligg­ur í ná­grenni móta Evr­as­íu- og Ind­lands­flek­ans.

Fyrri frétt mbl.is:

Öflugur jarðskjálfti í Afganistan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert