Byssumaður myrti tvo í Tel Aviv

Lögreglumenn fyrir utan barinn þar sem skotárásin átti sér stað.
Lögreglumenn fyrir utan barinn þar sem skotárásin átti sér stað. AFP

Tveir voru drepnir og að minnsta kosti sjö særðust þegar byssumaður hóf skothríð á bar og nærliggjandi kaffihúsi í miðborg Tel Aviv í Ísrael.

Lögreglunni hefur ekki tekist að hafa hendur í hári byssumannsins.

Enginn hefur lýst ábyrgð á verknaðinum á hendur sér en töluvert hefur verið um árásir Palestínumanna á Ísraela að undanförnu.

„Lögreglan leitar vítt og breitt um Tel Aviv að byssumanninum. Allir þeir sem særðust voru fluttir á sjúkrahús í Tel Aviv,“ skrifaði talsmaður lögreglunnar á Twitter.

Haim Pinto var að loka skartgripaverslun sinni, skammt frá barnum, þegar hann heyrði skotárásina. „Fólk byrjaði að hlaupa í áttina til mín og hrópaði „hryðjuverkamaður, hryðjuverkamaður“. Ég fór aftur inn í verslunina og stúlka kom þá inn og við földum okkur á baðherberginu þangað til skotárásinni lauk,“ sagði Pinto.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert