Fyrsta fórnarlamb flóttamannavandans á árinu 2016

Flóttafólkið var á yfirfullum gúmmíbáti sem steytti á skeri með …
Flóttafólkið var á yfirfullum gúmmíbáti sem steytti á skeri með þeim afleiðingum að litli drengurinn lést. AFP

Tveggja ára gamall drengur á leið frá Tyrklandi til Grikklands er fyrsta fórnarlamb flóttamannastraumsins til Evrópu í ár. Drengurinn var um borð í litlum og yfirfullum gúmmíbáti, sem steytti á skeri í Eyjahafi, skammt undan grísku eyjunni Agathonisi. Við það féll drengurinn fyrir borð og lést.

Samkvæmt fréttaveitunni AFP fundu fiskimenn lík litla drengsins.

39 aðrir farþegar voru í bátnum og voru tíu þeirra fluttir á sjúkrahús á Grikklandi vegna ofkælingar eftir sjóferðina. Upplýsingar um þjóðerni fólksins liggja ekki fyrir. 

MOAS, sem eru samtök sem vinna að björgun flóttafólks á hafi, komu fólkinu til bjargar í samráði við grísku strandgæsluna.

„Ekkert getur undirbúið þig fyrir þann hrollkalda veruleika sem blasir við,“ sagði Christopher Catrambone stofnandi MOAS í yfirlýsingu. „Í dag horfðum við upp á eitt yngsta fórnarlamb flóttamannavandans. Þetta er sorgleg áminning um þær þúsundir manna sem hafa dáið við að reyna að komast úr ömurlegum aðstæðum í öruggt skjól.“

Þrátt fyrir hættuna sem því er samfara leggur fjöldi fólks í siglingu frá Tyrklandi til Grikklands á degi hverjum og talið er að meira en 3.600 manns hafi látist á leiðinni í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert