57 flóttamönnum bjargað á Eyjahafi

Tyrkneska landhelgisgæslan bjargaði 57 flóttamönnum sem strönduðu á grýttri smáeyju …
Tyrkneska landhelgisgæslan bjargaði 57 flóttamönnum sem strönduðu á grýttri smáeyju á Eyjahafi fyrr í dag. AFP

Tyrkneska landhelgisgæslan bjargaði 57 flóttamönnum sem strönduðu á grýttri smáeyju á Eyjahafi fyrr í dag. Flóttamennirnir voru að freista þess á komast til Grikklands og þannig inn á svæði Evrópusambandsins.

Samkvæmt miðlinum Anatollia var flóttafólkið á leiðinni til grísku eyjarinnar Lesbos en þau lentu í vandræðum með bát sinn eftir að hafa yfirgefið dvalarstað sinn Dikili í Izmir héraðinu við strendur Tyrklands. Af myndum af atvikinu sést fólkið leita sér hjálpar á smáeyjunum í kring. Í hópnum voru konur og nokkur fjöldi barna.

Tólf manns sem voru illa farin, þar á meðal þrjú börn, voru flutt í öruggt skjól með hjálp þyrlu landhelgisgæslu Tyrklands. Hinir 45 voru sóttir af fiskibátum þar sem að erfitt var fyrir skip landhelgisgæslunnar að komast að smáeyjunum. Fólkið var flutt til hafnar Dikili.

Tyrkland er heimili um 2,2 milljóna flóttamanna sem flýja átökin í Sýrlandi. Flóttafólkið flýr til Tyrklands og reynir svo að koma sér þaðan til annarra ríkja Evrópu, oft með því að borga smyglurum fyrir að koma sér yfir landamæri.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um flóttamenn hafa um eina milljón flóttamanna komið til Evrópu af hafi árið 2015. Mikill meirihluti fólksins eða um 800 þúsund hafa komið til Grikklands.

Þrátt fyrir vetrarveður og erfiðar aðstæður á sjó er ekkert lát á komu flóttamanna til grísku eyjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert