Svíar vilja aftur herskyldu

Sænsk orrustuþota af gerðinni JAS 39 Gripen.
Sænsk orrustuþota af gerðinni JAS 39 Gripen. Wikipedia

Mikill meirihluti Svía vill að herskylda verði aftur tekin upp í landinu og að hún nái bæði til kvenna og karla samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar eða 72%. Fyrri ríkisstjórn hægri- og miðjumanna afnam herskyldu árið 2010 en núverandi stjórn jafnaðarmanna og græningja hefur sagt í skoðun að taka herskyldu upp að nýju.

Skoðanakönnunin var gerð af fyrirtækinu Ipsos fyrir sænska dagblaðið Dagens Nyheter og voru niðurstöðurnar birtar í gær. Einungis 16% töldu herskyldu slæma hugmynd. Herskylda var tekin upp í Svíþjóð fyrir alla karlmenn árið 1901. Síðustu árin áður en hún var formlega afnumin dró jafnt og þétt úr henni. Þannig gegndu undir lokin aðeins þeir herskyldu sem höfðu sérstaklega lýst áhuga á því. Tæplega 85% sænskra karlmanna sinntu herskyldu á tímum kalda stríðsins.

Fram kemur í frétt DN að sænska herinn skorti um 7.500 hermenn í dag til þess að geta sinnt hlutverki sínu sem sé um helmingur þess mannskaps sem herinn hafi yfir að ráða í dag. Þrátt fyrir að reka stórar skrifstofur þar sem fólki sé boðið að ganga í herinn og auglýsingaherferðir undanfarin ár. Margir kunni að sjá herskyldu sem lausn á þessum vanda hersins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert