Mánaðarskammtur matar á leiðinni til Madaya

Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna er lögð af stað til sýrlenska bæjarins Madaya með mat sem ætti að duga 40.000 íbúum bæjarins í einn mánuð.

Íbúar bæjarins hafa verið fastir þar í sex mánuði vegna herkvíar stjórnarhersins og hafa enga aðstoð eða vistir fengið síðan í október. Sumir hafa soltið til bana.

Von er á sendingum með lyfjum og öðrum neyðarvistum til bæjarins seinna í vikunni. Einnig verða sendar neyðarbirgðir til tveggja annarra bæja í héraðinu Idlib en hersveitir uppreisnarmanna hafa setið um bæina. Staðan er einnig gífurlega slæm í bæjunum Foah og Kefraya en þar er talið að um 30.000 manns sitji fastir. 

Madaya er í um 25 kílómetra fjarlægð frá Damaskus og 11 kílómetrum frá landamærum Sýrlands og Líbanons. Stjórnarherinn og bandamenn þeirra í Hezbollah hafa setið um bæinn síðan í júlí. Að sögn Brice de la Vigne sem starfar hjá Læknum án landamæra er staðan „hryllileg“ og hefur það eftir læknum í Madaya að meira en 250 manns séu þar „alvarlega vannærðir“.

Samkvæmt frétt BBC verða fyrstu vörubílarnir sem koma til Madaya með mat eins og hrísgrjón, grænmetisolíu, hveiti, sykur og salt og ætti skammturinn, eins og fyrr segir, að duga 40.000 íbúum bæjarins í einn mánuð.

Ef afhending matarins gengur vel er næsta skref að flytja neyðarbirgðir til bæjanna Foah og Kefraya. Seinna í vikunni stendur síðan til að koma lyfjum, vetrarklæðnaði og teppum til Madaya.

Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna ætlaði að koma til Madaya í gær en ekki liggur fyrir hvað olli seinkuninni.

Myndir og myndbönd frá Madaya hafa vakið athygli síðustu daga þar sem má sjá börn og fullorðna sem hafa varla fengið að borða í margar vikur. Hafa þau þurft að borða gras og gæludýr til að halda sér á lífi. Í síðustu viku var greint frá því að minnsta kosti 23 hafi soltið til bana í bænum síðan 1. desember.

Samkvæmt frétt BBC búa um 4,5 milljónir í Sýrlandi á svæðum þar sem erfitt er að komast að. Þar af búa um 400.000 á 15 stöðum sem setið er um af hersveitum, ýmist uppreisnarmanna eða stjórnarhersins.

Líbanir mótmælta herkví stjórnarhersins við Madaya en bærinn er í …
Líbanir mótmælta herkví stjórnarhersins við Madaya en bærinn er í 11 km fjarlægð frá landamærum Sýrlands og Líbanon. AFP
Myndir sem sýna stöðuna af fólkinu í Madaya hafa verið …
Myndir sem sýna stöðuna af fólkinu í Madaya hafa verið hengdar upp á ýmsum stöðum í Sýrlandi, meðal annars í Aleppo. AFP
Sýrlendingar mótmæla stöðunni í Madaya í Aleppo í dag.
Sýrlendingar mótmæla stöðunni í Madaya í Aleppo í dag. AFP
Þetta litla barn er meðal þeirra sem sveltur í Madaya.
Þetta litla barn er meðal þeirra sem sveltur í Madaya.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert