Sprenging í miðborg Istanbúl

mbl.is/Kristinn

Nokkrir eru sagðir hafa látið lífið í sprengingu í miðborg Istanbúl í morgun. Að sögn tyrkneskra fjölmiðla varð sprengingin um klukkan tíu í morgun að staðartíma eða klukkan átta að íslenskum tíma í sögulega hverfinu Sultanahmet, nálægt Bláu moskunni.

Sjúkrabílar voru sendir á staðinn og hefur lögregla girt svæðið af. Nokkrir tyrkneskir miðlar hafa haldið því fram að um sjálfsmorðssprengingu hafi verið að ræða.

Samkvæmt heimasíðu ríkisstjóra borgarinnar eru að minnsta kosti tíu látnir og fimmtán særðir í sprengingunni. The Guardian vitnar í konu sem vinnur í antíkbúð á svæðinu. „Sprengingin var mjög hávær. Húsið titraði. Við hlupum út og sáum líkamsparta.“

Rúmlega 100 manns létu lífið í tveimur sjálfsmorðssprengingum í Ankara í október. Þá létu rúmlega 30 lífið í sprengjuárás nálægt landamærum Sýrlands og Tyrklands í júlí.

Frétt BBC.

Fréttin verður uppfærð.

Uppfært klukkan 10:09

Sprengingin varð á svokölluðu Sultanahmet torgi. Óstaðfestar heimildir herma að maður hafi gengið að hópi ferðamanna á torginu og sprengt sig í loft upp. Þessu hefur verið haldið fram af tyrkneskum fjölmiðlum og sjónarvottum á Twitter. Því hefur einnig verið haldið fram á Twitter að tyrknesk yfirvöld hafi sett fjölmiðlabann á umfjöllun um sprenginguna. 

Lögregla biður fólk um að yfirgefa svæðið.
Lögregla biður fólk um að yfirgefa svæðið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert