„Facebook-morðinginn“ í lífstíðarfangelsi

mbl.is

Dómstóll í Miami-ríki í Bandaríkjunum dæmdi í gær karlmann í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa myrt eiginkonu sína. Eftir að hafa myrt konuna birti maðurinn mynd af blóðugu líkinu á samfélagsvefnum Facebook og viðurkenndi að hafa orðið henni að bana.

Maðurinn, hinn 33 ára gamli Derek Medina, var fundinn sekur um morð en hann skaut eiginkonu sína, Jennifer Alfonso, átta byssuskotum í eldhúsinu á heimili þeirra í ágúst 2013. Medina hefur haldið því fram að um sjálfsvörn hafi verið að ræða þar sem Alfonso hafi ógnað sér með hnífi. Þá hafi hún beitt hann líkamlegu ofbeldi árum saman. Kviðdómendur voru hins vegar ekki reiðubúnir að fallast á þá málsvörn hans og dæmdu hann sekan.

Málið vakti mikla athygli í ljósi þess að Medina setti mynd af líki hinnar 27 ára gömlu Alfonso á Facebook og viðurkenndi að hafa orðið valdur að dauða hennar áður en lögreglan handtók hann. „Ég fer í fangelsi eða fæ dauðadóm fyrir að drepa eiginkonu mína, elska ykkur öll, sakna ykkar allra, farið vel með ykkur Facebook-fólk,“ ritaði hann með myndinni.

„Þið munuð sjá mig í fréttunum, konan mín barði mig og ég ætlaði ekki lengur að sætta mig við þetta ofbeldi þannig að ég gerði það sem ég gerði, ég vona að þið sýnið mér skilning,“ ritaði Medina sömuleiðis. Dómarinn í málinu, Yvonne Colodny, sagði við Medina þegar dómurinn var kveðinn upp: Þú sagðir fyrir um framtíð þína. Þú sagðir á Facebook að þú færir í fangelsi og þangað muntu fara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert