Sjö látnir og yfir 300 slasaðir

Björgunarmenn að störfum.
Björgunarmenn að störfum. AFP

Í það minnsta sjö eru látnir eftir að sterkur jarðskjálfti í taívönsku borginni Tainan gerði það að verkum að byggingar hrundu.

Jarðskjálft­inn átti sér stað um klukk­an átta í gærkvöldi að ís­lensk­um tíma. Upp­tök skjálft­ans voru á 10 kíló­metra dýpi um 39 kíló­metra norðaust­ur af borg­inni Kaos­hiung en hann var 6,4 á stærð.

BBC segir björgunarmenn hafa unnið að því að ná til fólks sem situr fast í rústum húsanna allt frá því skjálftinn varð. Ungabarn var á meðal í það minnsta fjögurra sem létust þegar stór íbúðarblokk féll saman. Yfir 300 manns eru slasaðir.

Forseti landsins, Ma Ying-jeuo hefur lofað að öllu verði til tjaldað við björgunaraðgerðir. Skýli hafa verið sett upp fyrir þá sem hafa misst heimili sín í borginni sem telur tvær milljónir íbúa.

Björgunarmenn nota stiga til að komast um í rústunum.
Björgunarmenn nota stiga til að komast um í rústunum. AFP

Enn er fólk í rústunum

Myndskeið af vettvangi sýna björgunarmenn reyna í örvæntingu að ná til fólks í rústunum, notandi stiga til að klifra yfir hrúgur af grjótmulningi. Ein þeirra bygginga sem varð verst úti er 17 hæða íbúðarblokk þar sem í það minnsta 256 manns bjuggu.

Yfir 200 manns var bjargað, en ungabarn, ung stúlka og tveir fullorðnir karlmenn lifðu ekki af að sögn yfirvalda. Talið er að enn séu um 30 manns fastir í rústunum. Innanríkisráðherrann Chen Wei-jen segist óttast að fleiri kunni að hafa verið í blokkinni en vanalega þar sem fjölskyldur kunni að hafa safnast saman til að fagna kínverska nýárinu. Hann sagði að rannsakað yrði hvort bygging blokkarinnar hefði staðist skilyrði.

„Ég notaði hamar til að brjóta niður hurðina heima sem var snúin og læst og gat klifrað út,“ sagði kona, íbúi blokkarinnar, í samtali við sjónvarpsstöð í borginni. Annar maður batt saman föt til að búa til reipi og seig með því frá níundu hæð niður á þá sjöttu.

Í það minnsta fimm eftirskjálftar hafa átt sér stað frá stóra skjálftanum sem fannst í höfuðborginni Taipei um 300 km í burtu

Skemmdir virðast takmarkaðar en nokkur fjöldi hárra bygginga hallar eftir skjálftann. Fréttir hafa borist af rafmagnsleysi og almenningssamgöngur eru í uppnámi á einum af mestu ferðatögum ársins fyrir hátíðarhöld vegna kínversks nýárs.

Taívan er í nágrenni flekamóta og þar verða oft jarðskjálftar.

Yfirvöld í Peking hafa boðið fram hjálp sína en að sögn BBC virðist ekki útlit fyrir mikla utanaðkomandi neyðaraðstoð að sinni.

Árið 1999 létust yfir 2.300 manns vegna jarðskjálfta að stærðinni 7,6 í Taívan. Þá fékk landið svipað boð um hjálp frá Kína en yfirvöld í Taívan sökuðu Kínverja um að reyna að misnota ástandið fyrir pólitíska hagsmuni.

Björgunarmenn hjálpa ungu fórnarlambi jarðskjálftans úr rústunum.
Björgunarmenn hjálpa ungu fórnarlambi jarðskjálftans úr rústunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert