„Það hristist allt og húsið hrundi“

Notast er við vinnuvélar og byggingakrana til þess að fletta …
Notast er við vinnuvélar og byggingakrana til þess að fletta ofan af rústunum. AFP

Björgunarfólk leitaði í alla nótt að fólki föstu í hrundum byggingum í Tainan í Taívan. Meira en 250 manns var bjargað úr einu íbúðarhúsi en fjórtán hið minnsta létust og um 150 er saknað eftir jarðskjálfta í syðri hluta Taívan. Óttast er að tuttugu séu enn fastir í rústunum.

Skjálftinn var 6,4 að styrkleika og lagði fjórar húsaraðir í rúst. Jarðskjálftar eru nokkuð tíðir þar í landi en eyjan liggur á flekamótum. Versti skjálftinn í seinni tíð var árið 1999, 7,6 að styrkleika, en í honum fórust um 2.400 manns.

Utanríkisráðuneytinu er ekki kunnugt um neina Íslendinga á þessum slóðum.

Konu bjargað með krana ofan af fjölbýlishúsi.
Konu bjargað með krana ofan af fjölbýlishúsi. AFP

Taívanir fagna um þessar mundir nýju tunglári og voru margir í heimsókn hjá fjölskyldum sínum í húsunum sem hrundu vegna þess.

„Þegar jarðskjálftinn reið yfir rann ég úr rúminu og festist milli rúmsins og skáps,“ sagði Su Yi-ming eftir að hafa verið bjargað í nótt, en hann bjó á sjöttu hæð húss sem hrundi. „Ég bankaði á skápinn til þess að ná athygli björgunarfólks. Þau brutust í gegnum gluggann og björguðu mér um kl. fimm. Ég held ég hafi verið sá fyrsti sem var bjargað. Hugurinn tæmdist hjá mér þegar skjálftinn byrjaði, það hristist allt og húsið hrundi. Ég gat ekki brugðist við.“

Su slapp án meiðsla en kona hans og tvö börn urðu fyrir minni háttar meiðslum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert