Þúsundir gæta öryggis við Ofurskálina

F-15 herþota mun gæta öryggis gesta úr lofti.
F-15 herþota mun gæta öryggis gesta úr lofti. AFP

Yfirvöld í Kaliforníu hafa sóst eftir ráðum frá frönskum kollegum sínum vegna öryggisgæslu í aðdraganda Ofurskálarinnar sem leikin verður annað kvöld þar í landi. Þjóðaröryggisráðherra Bandaríkjanna, Jeh Johnson, segir að teymi sitt hafi verið í stöðugu sambandi við Frakka síðan árásirnar áttu sér stað í París á síðasta ári.

Ofurskálin er hápunktur tímabilsins í amerískum fótbolta og er búist við að um sjötíu þúsund manns muni koma saman til áhorfs á leikvellinum í Santa Clara, 40 kílómetrum sunnan við San Francisco.

Denver Broncos etja þar kappi við Carolina Panthers en Ofurskálin í ár er sú fimmtugasta í röðinni og er því hálf öld liðin síðan hún var fyrst haldin.

Þúsundir lögreglumanna og öryggisvarða munu vera á vakt í San Francisco-flóanum, sem inniheldur níu sýslur. Segja yfirvöld að þau séu ekki að bregðast við sérstakri ógn en á sama tíma hvetja þau almenning til að vera vel á verði.

Háttsettur starfsmaður NFL-deildarinnar, Jeffrey Miller, segir í samtali við fréttastofu Reuters að fjögur þúsund öryggisverðir hafi verið ráðnir til að styðja við lögreglu á svæðinu. Þá greinir CNN frá því að bandaríski flugherinn muni notast við F-15 herþotu til að gæta öryggis úr lofti.

BBC greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert