Aldraðri konu sleppt úr haldi mannræningja

Jocelyn Elliott er 84 ára gömul.
Jocelyn Elliott er 84 ára gömul. AFP

84 ára ástralskri konu sem var rænt af öfgahópi tengdum Al-Qaeda í Búrkína Fasó hefur verið sleppt. Samningamenn frá Níger vinna nú að því að fá hópinn til að sleppa einnig eiginmanni hennar.

Jocelyn Elliot og eiginmaður hennar Ken Elliott, 82 ára, eru frá Perth í Vestur-Ástralíu. Elliott-hjónin fluttu til Búrkína Fasó árið 1972 og ráku heilsugæslu í bænum Djibo nálægt landamærum Malí. Þeim var rænt í Búrkína Fasó nálægt landamærum Níger aðfaranótt 16. janúar.

Jocelyn  þakkaði yfirvöldum beggja ríkja í sjónvarpsútsendingu í Níger í dag. Sást hún sitjandi við hlið forsetans, Mahamadous Issoufous, í bænum Dosso, þar sem hann var staddur vegna kosningaherferðar sinnar fyrir forsetakosningar í landinu hinn 21. febrúar.

Mahamadou Issoufou, forseti Níger sagðist vonast til þess að eiginmanni …
Mahamadou Issoufou, forseti Níger sagðist vonast til þess að eiginmanni Jocelyn yrði brátt sleppt úr haldi mannræningjanna. AFP

„Henni var sleppt vegna inngrips Issoufous Mahamadous,“ sagði utanríkisráðherra Búrkína Fasó, Alpha Barry, í útsendingunni. Issoufou sagði yfirvöld landanna tveggja hafa unnið hörðum höndum að frelsun fólksins í sameiningu.

„Ég vona einnig að eiginmaður hennar verði frelsaður,“ sagði Issoufou, sem þakkaði parinu sérstaklega fyrir að hafa séð fátæku fólki í Búrkína Fasó fyrir læknisþjónustu.

„Ég held að þeir sem rændu þeim ættu að vita hvað þetta par hefur gert fyrir fátækasta fólkið á svæðum okkar. Ég vona að þau verði brátt saman að nýju og að eiginmaður Jocelyn verði brátt frjáls.“

Barry sagði yfirvöld hafa vitneskju um að Ken væri lifandi og við góða heilsu. Sagði hann ekkert lausnargjald hafa verið greitt fyrir Jocelyn og að engin skilyrði hefðu fylgt lausn hennar af hálfu mannræningjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert