Í gæsluvarðhald fyrir hótanir gegn menntaskóla

Frá Nuuk á Grænlandi.
Frá Nuuk á Grænlandi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Grænlenski karlmaðurinn sem handtekinn var í Nuuk í gær, sem hótaði árásum á menntaskólanema, hefur verið úrskurðaður í 25 daga gæsluvarðhald.

Lögreglan gerði í gær áhlaup á íbúð hans við Kongevej. Hann er grunaður um að hafa sent tölvupóst til menntaskólans í borginni á föstudaginn með hótunum og tilvísunum í skotárásir í bandarískum skólum. 

Sjá frétt mbl.is: Hótaði skotárás á menntaskóla

Karlmaðurinn var eftir handtökuna lagður inn á geðdeild en var úrskurðaður í 25 daga gæsluvarðhald í dag. Fyrir dómara greindi saksóknari frá því að maðurinn væri grunaður um tilraun til manndráps og að hann hefði verið að undirbúa skólaskotárás. Meðal annars hefði hann útvegað sér riffil. 

Einnig voru við fyrirtökuna á gæsluvarðhaldskröfunni lesin upp skilaboð sem hann á að hafa sent kennurum við skólann. Þar er vísað til skotárásarinnar á Columbine-skólann árið 1999 með textanum: „Who's next - maybe your next.“

Hinn grunaði mætti sjálfur ekki fyrir dómara í dag vegna andlegs ástands en dómari féllst á gæsluvarðhald í 25 daga. Nái hann bata fyrir þann tíma verður ákæruvaldið þó að færa hann fyrir dómara innan sólarhrings til þess að framlengja gæsluvarðhaldsúrskurðinn.

Sjá frétt grænlenska ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert