Íbúum í blokkinni brugðið

Frá vettvangi í Hammerfest.
Frá vettvangi í Hammerfest. Mynd/Jón Vigfús Guðjónsson

„Flóðið féll hérna alveg við blokkina. Hún er skeifulaga og ég bý í öðrum endanum sem er alveg upp við fjallið. Það eru 20 metrar frá blokkinni að flóðinu,“ segir Jón Vigfús Guðjónsson, íbúi í Hammerfest í Noregi, þar sem snjóflóð féll á þrjá drengi í dag.

Jón Vigfús á sjálfur tvö börn, 7 og 11 ára, og þau eru oft að leik á svæðinu. Raunar voru þeir þar síðast í gær en þeir voru innandyra þegar flóðið féll í dag.

Þrír drengir lentu undir flóðinu en þeir hlutu aðeins minni háttar meiðsl, en eru að vonum skelkaðir eftir upplifunina. Upphaflegar fréttir sögðu að tveir þeirra hefðu hlotið alvarleg meiðsl en svo reyndist ekki vera. 

Sjá frétt mbl.is: Snjóflóð féll á unga drengi

Björgunarmenn leituðu áfram í flóðinu því óttast var að fleiri krakkar gætu hafa lent undir því en leit er nú hætt. „Það hafa ekki fleiri krakkar orðið undir flóðinu en fylgst verður með í bænum næstu daga ef einhver skyldi ekki skila sér heim. Það gæti líka hafa verið fullorðið fólk á ferð þarna þar sem göngustígur liggur í gegnum svæðið,“ segir Jón Vigfús.

Hann segir íbúum í blokkinni vera verulega brugðið. „Það hafa víða fallið snjóflóð í bænum því hann liggur í hlíð.“

Í samtali við Verdens gang sagði yfirmaður björgunaraðgerða að hann vissi ekki til þess að snjóflóð hefðu fallið á þessum stað áður, en Jón Vigfús segir það ekki rétt. „Það eru ekki mörg ár síðan það féll eins flóð á sama stað. Flóðið féll neðan við snjóflóðavörnina sem er fyrir ofan. Það er spurning hvort snjóflóðavörnin safni saman snjó sem síðan fellur niður eða hvort hreinlega þurfi aðra vörn. En nú er búið að girða svæðið af.“

„Þótt flóð hafi fallið á þessum stað áður, þá er blokkin sjálf ekki í hættu. Þetta er ekki hátt fjall,“ segir Jón Vigfús.

Frá vettvangi í Hammerfest.
Frá vettvangi í Hammerfest. Mynd/Jón Vigfús Guðjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert