Kærir eiginkonuna fyrir að þrífa ekki

Karlmaður frá héraðinu Lazio á Ítalíu hefur kært eiginkonu sína fyrir að vanrækja fjölskyldu sína þar sem hún sé ekki nægjanlega dugleg við að elda mat og þrífa. Maðurinn segir konu sína, sem er fertug, ekki sinna skylduverkum sínum nógu vel.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.it að verði konan sakfelld gæti hið meinta brot varðað fangelsi allt að sex árum samkvæmt ítölskum lögum. Eiginmaðurinn segir framferði konunnar hafa falið í sér móðgun í hans garð og hafi viðgengist í rúmlega tvö ár.

Maðurinn, sem er sjö árum eldri en eiginkonan, segir konuna hafa rekið sig úr hjónaherberginu þeirra á sínum tíma og síðan hafi hann þurft að búa við aðstæður þar sem hreinlæti hafi verið ábótavant. Þá hafi matvæli sem hann hafi keypt endað í ruslinu þar sem konan hans hafi sjaldan eldað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert