Neitar að fara í leyfi frá nefndarstörfum

Nefndin var sett á laggirnar til þess að veita Francis …
Nefndin var sett á laggirnar til þess að veita Francis páfa ráðgjöf í því að takast á við kynferðisbrot innan kaþólsku kirkjunnar. AFP

Peter Saunders, baráttumaður fyrir málefnum barna sem beitt voru kynferðislegu ofbeldi innan veggja kaþólsku kirkjunnar, segist alls ekki vera að hætta störfum í nefnd kirkjunnar sem ætlað er að ráðleggja páfa í kynferðisbrotamálum, þvert á yfirlýsingu nefndarinnar í gær.

„Það hefur verið ákveðið að Peter Saunders taki sér leyfi [frá störfum í nefndinni],“ sagði í yfirlýsingu frá nefndinni í gær. Ekkert fylgdi þó sögunni um að Saunders, sem var sjálfur beittur kynferðislegu ofbeldi af prestum kirkjunnar sem barn, hefði tekið þátt í þeirri ákvörðun. Hann hefur nú stigið fram, segist hvergi nærri hættur og yfirlýsing nefndarinnar að honum forspurðum sé hneyksli.

Ræðir stöðu sína aðeins við páfa

„Ég var aldrei látinn vita fyrirfram af neinni slíkri yfirlýsingu,“ sagði Saunders við BBC. „Mér finnst það hneykslanlegt að ég hafi ekki verið látinn vita, hvað þá að yfirlýsingin hafi verið gefin út áður en ég hafði nokkurn tíma til þess að íhuga næstu skref. Ég er ekki hættur og ég mun ekki láta af stöðu minni í nefndinni. Ég var skipaður af Frans páfa og ég mun aðeins ræða stöðu mína við hann.“

Nefndin samþykkti nýverið vantrauststillögu á Saunders, en hann hefur verið harður gagnrýnandi á störf hennar. Aðrir nefndarmenn sögðu hann baráttumann sem væri stöðugt í fjölmiðlum.

„Fyrir mig, sem eftirlifanda kynferðislegs ofbeldis, er nefndin til skammar... [Nefndarmenn] halda að barnaníð sé að baki hjá okkur, en það er það alls ekki,“ sagði Saunders.

Frétt BBC

Peter Saunders
Peter Saunders Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert