Rubio skotspónn í kappræðunum

Marco Rubio, frambjóðandaefni Repúblikana í forsetakosningum í Bandaríkjunum, lét á sjá í kappræðum frambjóðendaefnanna í undanfara forkosninga í New Hampshire. Donald Trump er spáð sigri þar á þriðjudag.

Rubio, 44 ára öldungadeildarþingmaður frá Flórída, var vandræðalegur á sviðinu en keppinautar hans gerðu atlögu að reynsluleysi hans. Kannanir hafa sýnt að Rubio þyki sigurstranglegastur Repúblikana í forsetakosningum hljóti hann útnefningu.

Innanbúðarmenn í flokknum og hefðbundnir stuðningsaðilar hans hafa einnig dregið sig nær Rubio en þeir Donald Trump og Ted Cruz, sem hafa notið mests fylgis, eru harla óvinsælir meðal flokksmanna. Sá frambjóðandi sem nær að festa sig í sessi á eftir þeim er talinn geta notið stuðnings flokksins til þess að taka fram úr þeim.

Jeb Bush, Marco Rubio og Donald Trump á sviðinu í …
Jeb Bush, Marco Rubio og Donald Trump á sviðinu í gærkvöld. AFP

Obama veit nákvæmlega hvað hann er að gera

Í kappræðunum varð Rubio uppvís að því að tönnlast í fjórgang á sömu undirbúnu línunum um ásetning Obama forseta í svörum sínum. „Látum ekki blekkjast af þeim skáldskap að Barack Obama viti ekki hvað hann er að gera. Hann veit nákvæmlega hvað hann er að gera,“ endurtók Rubio.

Chris Christie, ríkisstjóri í New Jersey, hafði fyrr í kappræðunum gagnrýnt hann fyrir einmitt þetta, að undirbúnar 30 sekúndna ræður leysi engin vandamál, og gekk á lagið. Þá uppskar Rubio baul þegar hann ásakaði Christie um að draga lappirnar í að snúa aftur til New Jersey frá framboðsstörfum þegar snjóbylur varð á austurströndinni.

Ted Cruz, Ben Carson og Chris Christie.
Ted Cruz, Ben Carson og Chris Christie. AFP

Trump með sigur vísan, Bush í nauðvörn

Donald Trump er talinn langsamlega líklegastur til þess að fara með sigur af hólmi í New Hampshire en hann nýtur þar 35% stuðnings í nýlegri könnun. Næstur á eftir honum er Rubio með 14%. Ted Cruz hlaut flest atkvæði í Iowa en hefur ekki hlotið sömu náð fyrir augum New Hampshire-búa.

Jeb Bush, fv. ríkisstjóri í Flórída, er á sama tíma að komast á síðasta séns með að sýna árangur af kosningabaráttu sinni. Hann hefur fengið gríðarleg fjárframlög og eytt miklu fé í baráttuna en hefur uppskorið lítið fylgi. Bush gagnrýndi reynsluleysi Rubio í kappræðunum og ósvífni Trumps í viðskiptum og þótti með því sýna meiri lit en áður.

John Kasich hefur ekki náð miklum hæðum í skoðanakönnunum en hann er talinn höfða frekar til óháðra kjósenda en aðrir frambjóðendur. Hann lofaði gríðarlegum breytingum, verði hann kosinn forseti. „Verði ég kosinn forseti, farðu út á morgun og kauptu þér sætisbelti. Það mun svo mikið gerast á fyrstu hundrað dögunum mínum í embætti að þig mun svima,“ sagði Kasich.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert