Skutu einhverfan mann til bana

Samson huggar Clarke.
Samson huggar Clarke. Skjáskot

24 ára transmaður með Asperger sem birti áhrifaríkt myndband af sér og þjónustuhundinum sínum síðasta sumar  var skotinn til bana af lögreglu á fimmtudag.

Kayden Clarke var skotinn af lögreglumönnum í Mesa, Arizona, eftir að þeir komu í íbúð hans vegna símtals um tilraun til sjálfsvígs að því er NY Daily News greinir frá.

Lögregla notaði skráð nafn Clarke, Danielle Jacobs, þegar hún greindi fjölmiðlum frá málavöxtum. Sagði lögregla Clarke hafa ráðist að lögreglumönnunum með hnífi og skotin hefðu verið sjálfsvörn.

Clarke vakti athygli víða um heim í fyrra þegar hann birti afar áhrifamikið myndband sem sýnir þjónustuhundinn hans, Samson, hjálpa honum að eiga við einskonar kvíðakast. Í myndbandinu sést Clarke gráta og slá sjálfan sig en Samson stöðvar hann með loppunum og hlúir að honum þar til hann róast niður.

„Svona er að vera með Asperger,“ skrifaði Clarke við myndbandið sem  útskýrði í viðtali við Huffington post að þegar hann brotnaði niður með þessum hætti ætti hann til að skaða sjálfan sig.

„Ég talaði við hana í fyrri nótt og nóttina áður og hún virtist hafa það fínt,“ sagði móðir Clarke sem nú hefur tekið við umönnun Rottweiler hundsins.

Hún bætti því við að fólk sem þekkti son hennar, sem hún talaði um sem dóttur, efuðust um að nauðsynlegt hafi verið að skjóta unga manninn í magann.

„Áður en lögreglan kom var hún engin ógn við samfélagið yfir höfuð,“ sagði Stacia. „Og lögreglan kom inn til hennar. Þeir skutu og drápu 24 ára, einhvarfan einstakling með geðræn vandamál sem þeir þekktu til og þeir vissu af sérstökum þörfum hennar.“

Enginn lögregluþjónanna sem kom að heimili Clarke slasaðist eða særðist. Þeir hafa verið sendir í tímabundið leyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert