Barnaníðingar sitja um flóttabörn

Fjölmargir flóttamenn hafa komið til Noregs frá Rússlandi.
Fjölmargir flóttamenn hafa komið til Noregs frá Rússlandi. AFP

Þekktir kynferðisbrotamenn hafa beitt börn sem eru á flótta kynferðislegu ofbeldi í Noregi, að sögn norsku rannsóknarlögreglunnar, Kripos. Bæði er um að ræða níðinga sem búa á heimilum fyrir flóttafólk sem og níðinga sem halda til við heimili þar sem flóttabörn búa. Fjallað er um þetta í dagblaðinu Klassekampen og norska ríkisútvarpinu í dag.

Að sögn Eivinds Borges, sérfræðings hjá Kripos, eru börn, bæði þau sem eru ein á flótta og önnur flóttabörn, í sérstaklega mikilli hættu gagnvart barnaníðingum. Lögreglan hafi séð þekkta níðinga á sveimi við móttökustöðvar flóttafólks og heimili þeirra, einkum þar sem börn, sem eru án fylgdar, búa. Eins hafa brot gagnvart börnum verið kærð til lögreglu í Noregi.

Hann vill ekki upplýsa hversu mörg slík mál hafi verið kærð eða komið á borð norsku lögreglunnar að öðru leyti en að staðfesta að barnaníðingar hafi beitt flóttabörn ofbeldi í Noregi.

Að sögn Borges eru væntanlega mörg mál sem aldrei koma til lögreglunnar, meðal annars vegna reynslu flóttafólks af vinnubrögðum lögreglu í öðrum löndum.

Klassekampen

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert