Kirkjan siðferðilega gjaldþrota?

Frans páfi bað Saunders persónulega um að taka sæti í …
Frans páfi bað Saunders persónulega um að taka sæti í nefndinni en hefur nú valdið honum gríðarlegum vonbrigðum. Saunders segir páfa hafa sýnt að hann sé hluti vandans. AFP

Breskur maður sem varð fyrir kynferðisofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar segist upplifa að hafa verið svikinn af Frans páfa. Peter Saunders var vikið úr ráði Vatíkansins um kynferðisbrot innan kirkjunnar og segir páfa hafa sýnt að hann sé hluti vandans.

Í samtali við AFPTV bar Saunders til baka fregnir þess efnis að hann hefði sagt af sér og sagði að enginn nema páfi hefði getað þvingað hann til að láta af setu í nefndinni.

Frétt mbl.is: Neitar að fara í leyfi frá nefndarstörfum

„Það nístir hjarta mitt því þegar ég hitti hann fyrir 18 mánuðum hélt ég að það væri til staðar einlægni og vilji til að láta hlutina gerast, og ég er hræddur um að þær vonir séu brostnar,“ sagði hann.

Það var Frans sjálfur sem bað Saunders um að taka sæti í nefndinni en Saunders fer fyrir bresku samtökunum National Association for People Abused in Childhood. Þátttaka hans, og Marie Collins, sem einnig varð fyrir kynferðisofbeldi innan kirkjunnar, þótti ljá nefndinni trúverðugleika.

Í dag segir Saunders hins vegar að um blekkingu hafi verið að ræða og að hann sé sannfærður um að kirkjan muni aldrei gera það sem þarf til að lækna „meinið“.

Vatíkanið staðfesti í gær að Saunders, 58 ára, hefði verið beðinn um að ganga úr nefndinni vegna ósættis um hvort hinir 17 nefndarmenn ættu að láta sig varða einstaka kynferðisbrotamál sem bærust til eyrna kirkjunnar.

Saunders sagði að ákvörðunin um brotthvarf hans hefði verið tekin í kjölfar þess að annar nefndarmaður sagði honum frá því að tveir ítalskir prestar hefðu uppgötvað að kollegi þeirra væri „raðníðingur“.

„Ég hef alltaf sagt að ég mun segja það sem mér liggur á hjarta og iðka rétt minn til tjáningarfrelsis og það er ekki í samræmi við það hvernig kirkjan og ráðið starfa,“ segir Saunders. „Það er einnig meginástæða þess að misnotkun innan kirkjunnar er enn mikil og útbreidd.“

Leynd og myrkur

Saunders segir allt háð leynd og myrkri og að hann sé ekki tilbúinn til að þegja þegar velferð barna sé undir. Þá segir hann að viðkomandi biskup hafi fyrirskipað prestunum ítölsku að þegja um málið.

Málinu var vísað til Vatíkansins til umfjöllunar.

„Mér þykir það óásættanlegt að menn sem gera hið rétta og koma börnunum til varnar séu sendir burtu af lögreglu, en meira en það og meira ógnvekjandi en það, sagt af yfirmanni sínum, biskupi, að gera ekki neitt og þegja.“

Saunders sagðist skilja að nefndinni væri ekki ætlað að taka á yfirstandandi málum en að ekkert myndi batna á meðan einu aðgerðirnar fælust í umræðum um hvernig ætti að standa að ráðningu presta í framtíðinni eða breyta kirkjulögum.

„Sumt af því sem við höfum verið að gera er mikilsvert, en það kemur ekki í veg fyrir að börnum sé nauðgað í dag.“

Saunders segir að grípa verði til aðgerða þegar misnotkun kemur upp á yfirborðið og segir að sem faðir upplifi hann hjartasorg við að heyra af alvarlegum ásökunum um kynferðisofbeldi sem enginn hyggst taka á.

Þá segir hann að það þurfi að uppræta þann málatilbúnað kirkjunnar að kynferðisbrot innan veggja hennar tilheyri fortíðinni. „Þetta er ekki á nokkurn hátt sögulegt viðfangsefni eða vandamál. Það verður að taka á þessu núna. Páfinn gæti gert svo miklu meira en hann gerir næstum ekki neitt.“

Saunders sagði um samfélagslegt mál að ræða en ef kirkjan gæti ekki tekist á við það, þá væri hún siðferðilega gjaldþrota að öllu leyti.

Peter Saunders.
Peter Saunders. Skjáskot
Að sögn Saunders gæti páfi gert svo miklu miklu meira, …
Að sögn Saunders gæti páfi gert svo miklu miklu meira, en gerir lítið sem ekkert. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert