Nokkrir látnir og 100 slasaðir

AFP

Nokkrir létust og um eitt hundrað eru slasaðir eftir að tvær farþegalestir rákust saman í suðurhluta Þýskalands fyrr í morgun. 

Verið er að flytja um 100 manns á sjúkrahús, segir talsmaður lögreglunnar í Rosenheim, Martin Winkler. Hann segir að einhverjir séu alvarlega slasaðir en aðrir minna. 

Þyrlur fluttu þá sem voru mest slasaðir á sjúkrahús.
Þyrlur fluttu þá sem voru mest slasaðir á sjúkrahús. AFp

Bætt við fréttina klukkan 8:45

Að minnsta kosti fjórir eru látnir og af þeim slösuðu eru fimmtán í lífshættu og 40 töluvert slasaðir. Alls eru um 100 slasaðir, segir Winkler. 

Fjölmargir slökkviliðsmenn og sjúkraliðar eru að störfum
Fjölmargir slökkviliðsmenn og sjúkraliðar eru að störfum AFP

 

Ekki er vitað hvað olli slysinu sem átti sér stað skammt frá Bad Aibling, um 60 km suðaustur af München.

Á vef BBC kemur fram að önnur lestin hafi farið út af sporinu og nokkrir vagnar oltið. Nokkrar þyrlur eru að flytja slasaða á sjúkrahús auk fjölmargra sjúkrabíla. Öllum þjóðvegum í nágrenninu hefur verið lokað og engri umferð hleypt um járnbrautarteinana á milli Holzkirchen og Rosenheim. Hundruð sjúkraliða og björgunarsveitarmanna eru á staðnum að veita aðstoð.

AFP

Slysið átti sér stað um sjöleytið að staðartíma, um sex að íslenskum tíma. Svo virðist sem lestirnar hafi mæst á sömu teinum. Einhverjir fjölmiðlar segja að tveir hafi látist en aðrir tala um fjóra þannig að enn er óljóst hversu margir eru látnir. Jafnframt herma einhverjir fjölmiðlar að átta séu alvarlega slasaðir. 

Frá slysstaðnum
Frá slysstaðnum AFP

Vitað er að börn voru farþegar í lestunum þar sem vetrarfrí eru í skólum í Bæjaralandi vegna föstunnar voru færri börn á ferðinni en ella.

Í tilkynningu frá járnbrautarfyrirtæki Bæjaralands, Meridian, er enn óljóst hvað olli slysinu en um einbreiða járnbrautarteina er að ræða á milli bæjanna Rosenheim og Holzkirchen. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert