Sanders og Trump með sannfærandi forskot

Kannanir hafa sýnt Sanders með tveggja tölustafa forskot á Clinton.
Kannanir hafa sýnt Sanders með tveggja tölustafa forskot á Clinton. AFP

Þegar 14,33% atkvæða hafa verið talin í forkosningum demókrata í New Hampshire hefur Bernie Sanders hlotið 56,6% atkvæða og Hillary Clinton 41,4% atkvæða. Ef þessi skipting heldur verður sigur Sanders töluvert stærri en kannanir bentu til.

Frétt mbl.is: Trump og Sanders eygja sigur

Hjá repúblikönum leiðir Donald Trump þegar 13,67% atkvæða hafa verið talin. Hann hefur hlotið 33,9% atkvæða en á eftir honum kemur John Kasich með 16,2% atkvæða. Ef Kasich heldur þessu fylgi eftir því sem líður á talninguna verður léttir frambjóðandans eflaust mikill, en sérfræðingar höfðu spáð því að hann myndi heltast úr lestinni ef hann yrði aftarlega í kapphlaupinu í New Hampshire.

Guardian fylgist með talningunni í beinni.

Uppfært kl. 01.57:

Clinton hefur játað sig sigraða í New Hampshire, en kosningastjóri hennar segir að útnefningin verði unnin í mars og þá verði Clinton í stöðu til að tryggja sér fjölda kjörmanna.

Það er þó nær að tala um stórsigur Bernie Sanders fremur en ósigur Clinton, en þegar 23,33% atkvæða hafa verið talin í forkosningum demókrata hefur Sanders hlotið 57,7% atkvæða og Clinton 40,3%.

Þá hafa 25,33% atkvæða verið talin í forkosningum repúblikana og þar virðist Donald Trump hafa tryggt sér sinn fyrsta sigur í útnefningarkapphlaupinu vestanhafs með 33,6% atkvæða. Í öðru sæti er John Kasich með 15,5% atkvæða en Ted Cruz og Jeb Bush skipa sér í þriðja og fjórða sæti með rúm 11%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert