Þúsund ára hefð kastað fyrir róða

Kálfsskinn er sagt endast í 5.000 ár en líftími skjalapappírs …
Kálfsskinn er sagt endast í 5.000 ár en líftími skjalapappírs er mun skemmri. mbl.is/Eyþór Árnason

Lávarðadeild breska þingsins hefur ákveðið að framvegis verða lög konungsríkisins prentuð á hefðbundinn skjalapappír í stað kálfsskinns. Breytingunni hefur verið harðlega mótmælt af fjölda þingmanna, en hún er sögð munu spara ríkinu um 80.000 pund á ári.

Í þúsundir ára hefur öll löggjöf og sum mikilvægustu sögulegu skjöl landsins verið rituð á kálfsskinn, þeirra á meðal lögbókin Magna Carta og Dómsdagsbókin frá 1086.

Fjöldi þingmanna óttast að nú sé söguleg hefð farin forgörðum. Þá hafa þeir bent á að á meðan kálfsskinnið endist í 5.000 ár, sé endingartími skjalapappírsins aðeins 200 ár.

Í október sl. sagði John Bercow, forseti neðri deildar þingsins, að þingmenn ættu að fá að greiða atkvæði um málið en samkvæmt úrskurði sem féll á 19. öld hefur lávarðadeildin heimild til þess að ákveða hvernig lög þingsins eru skrásett.

„Hinir ókjörnu lávarðar virðast taka ákvarðanirnar, hvort sem þær eru stórar eða smáar,“ hefur Telegraph eftir Paul Wright, sem er eini framleiðandi kálfsskinns á Bretlandi. Hann segir hneyksli að lávarðadeildin réttlæti gjörðir sínar með því að vísa til ákvörðunar frá 1800-og-eitthvað.

„Þeir hafa ákveðið að komandi kynslóðum verður meinað að þreifa á sögunni og enginn maður hefur rétt til þess að taka þá ákvörðun,“ segir hann.

James Gray, þingmaður North Wiltshire, bendir á að ef ekki væri fyrir kálfsskinnið ættu Bretar ekki Magna Carta og Dómsdagsbókina í dag.

„Þetta er rangt að svo mörgu leiti, að þeir geti bara gert þetta án umræðu eða samráðs og þegar tölurnar sem þeir hafa reiknað upp virðast tortryggilegar í besta falli,“ segir þingmaðurinn Sharon Hodgson.

Að sögn talsmanns lávarðadeildarinnar hefur legið fyrir í langan tíma að í þetta stefndi. Ákvörðunin sé orðinn hlutur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert