Fékk laun í sex ár fyrir enga vinnu

Frá Spáni. Mynd úr safni.
Frá Spáni. Mynd úr safni. AFP

Spænskur embættismaður hefur verið sektaður um 27 þúsund evrur, eða sem nemur tæpum fjórum milljónum króna, eftir að í ljós kom að hann hefur ekki mætt til vinnu í að minnsta kosti sex ár.

Upp komst fyrst um fjarveru Joaquins Garcia þegar hann hafði unnið sér inn rétt til verðlauna vegna áralangrar þjónustu í þágu hins opinbera. Hinn 69 ára Garcia hafði þá fyrir þónokkru síðan valið að fara á eftirlaun.

Hann neitaði ásökununum og sagðist vera fórnarlamb eineltis. Dómstóll dæmdi yfirvaldinu hins vegar í hag og skipaði honum að borga sektina.

Skrifstofa Garcia á móti skrifstofu forstjórans

Garcia fékk í laun 37 þúsund evrur fyrir skatt á ári frá vatnsveitu sem rekin er af héraðsyfirvöldum í borginni Cadiz. Sektin jafngildir árslaunum eftir skatt en það var það mesta sem fyrirtækið gat löglega farið fram á.

Fyrir dómstólnum kom fram að forstjóri fyrirtækisins hafði ekki séð Garcia í fjölda ára þrátt fyrir að skrifstofur þeirra væru gegnt hvor annarri.

Vatnsveitan stóð í þeirri meiningu að Garcia væri á vegum héraðsyfirvalda en þau héldu að því væri öfugt farið.

Fréttastofa BBC fjallar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert