Antonin Scalia látinn

Antonin Scalia, hæstaréttardómari í Bandaríkjunum.
Antonin Scalia, hæstaréttardómari í Bandaríkjunum. Mynd/Wikipedia

Antonin Scalia, hæstaréttardómari í Bandaríkjunum, er látinn. Hafa fjölmiðlar vestanhafs þetta eftir ríkisstjóra Texas, sem segir andlát hans hafa borið að með eðlilegum hætti.

Scalia, sem var 79 ára að aldri, var skipaður dómari við réttinn af Ronald Reagan Bandaríkjaforseta árið 1986.

Andlát hans gæti breytt valdajafnvæginu innan réttarins þar sem Barack Obama gæti nú skipað framsæknari dómara við réttinn, en Scalia hefur lengi verið einna íhaldssamastur.

Hinn íhaldssami meirihluti hindraði nú nýlega áform ríkisstjórnar Obama um endurbætta löggjöf í loftslags- og innflytjendamálum.

Scalia var einn þeirra sem mest studdu upprunahyggjuna svokölluðu, sem snýst um að bandaríska stjórnarskráin hafi fasta þýðingu og túlkun hennar breytist ekki með tímanum.

Á ferli sínum hefur Scalia barist hart gegn rétti til fóstureyðinga og réttindum samkynhneigðra, og hafa sératkvæði hans oft falið í sér mikla neikvæðni í þeirra garð.

Frétt mbl.is: Hæstaréttardómari sakaður um fordóma

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert