Ætla að standa við vopnahléið

Vladimir Putin og Barack Obama ræddust við símleiðis í dag …
Vladimir Putin og Barack Obama ræddust við símleiðis í dag um stöðu mála í Sýrlandi.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Barack Obama Bandaríkjaforseti ætla að standa við vopnahléið sem samþykkt var í Munchen á föstudag. Leiðtogarnir ræddust við símleiðis í morgun um stöðuna í Sýrlandi, m.a. áhyggjur Bandaríkjamanna af árásum Tyrklands gegn Kúrdum í norðurhluta Sýrlands.

Í yfirlýsingu frá rússneskum yfirvöldum í kjölfar símtalsins segir að báðir leiðtogarnir hafi verið jákvæðir gagnvart því að standa við vopnahléið sem samið var um í Munchen á föstudaginn var. Sagði Pútín það nauðsynlegt að myndað yrði bandalag gegn hryðjuverkamönnum í Sýrlandi, en Rússar hafa staðið þétt að baki Bashar al-Assad, Sýrlandsforseta, í baráttu hans gegn hryðjuverkamönnum og öðrum uppreisnarmöflum í landinu frá því í september sl. þegar þeir hófu loftárásir í Sýrlandi.

Vara við því að steypa Assad af stóli

Rússar eru á móti því að ráðist verði í landhernað í Sýrlandi, á sama tíma og Tyrkir ásamt Sádi-Aröbum íhuga möguleika á landhernaði, m.a. gegn Kúrdum sem eru studdir af rússneskum stjórnvöldum.

Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, sagði í samtali við miðilinn Euronews í dag að Assad Sýrlandsforseti sé ríkjandi forseti í landinu og ef honum yrði bolað frá völdum kæmi til upplausnar í landinu.

„Þér getur líkað hann eða ekki, en hann er samt sitjandi forseti,” sagði Medvedev og bætti við að ef honum yrði steypt af stóli kæmi til ringulreiðar sambærilegri þeirri sem hefur komið til í öðrum Miðausturlöndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert