Virðast hafa verið á fullri ferð

Hljómsveitin Viola Beach.
Hljómsveitin Viola Beach.

Svo virðist sem bifreið tónlistarmannanna fimm, sem steyptist fram af brú við Stokkhólm aðfaranótt laugardags, hafi verið ekið fram af brúnni á fullum hraða.

„Samkvæmt frásögnum vitna sáust engin hemlaljós á bifreiðinni. Það lítur út fyrir að þeir hafi einfaldlega ekki séð að þarna var brú að opnast,“ segir varðstjórinn Martin Bergholm hjá lögreglunni í Södertälje í samtali við Aftonbladet. „Þeir einu sem vita hvað raunverulega átti sér stað eru nú látnir.“

Frétt mbl.is: Breskir tónlistarmenn létust í bílslysi

Fjórir mannanna voru meðlimir hinar upprennandi bresku sveitar Viola Beach en sá fimmti var umboðsmaður þeirra. Aðeins nokkrum klukkustundum fyrir slysið höfðu félagarnir leikið á tónlistarhátíðinni Where's the Music í borginni Norrköping. Voru tónleikarnir þeirra fyrstu utan Bretlands.

Öryggisbúnaður í lagi

„Vitni segja að öryggisbúnaður brúarinnar hafi verið í lagi og að bifreiðin hafi farið framhjá fjölda bíla sem biðu þess að brúin færi aftur niður. Við erum enn að yfirheyra vitni og rannsaka málið til að komast að því hvað gerðist,“ segir talsmaður lögreglunnar Karina Skagerlind í samtali við fréttamiðilinn Local.

Hinn 22 ára John Hugo Olsson, sem er meðlimur sænsku sveitarinnar Psykofant, deildi búningsherbergi með drengjunum og umboðsmanninum á föstudagskvöld. Segir hann umboðsmanninn, Craig Tarry, hafa neitað boði hans um bjór þar sem hann vissi að hann þyrfti að keyra hljómsveitina aftur á hótel þeirra á Arlanda flugvellinum í Stokkhólmi.

Frétt mbl.is: Steyptist af brú í Stokkhólmi

Í samtali við Local segir hann drengina í Viola Beach hafa unnið hug sinn allan við fyrstu kynni.

„Þeir voru frábærir, þú varðst strax ástfanginn af þeim um leið og þeir gengu inn um dyrnar,“ segir Olsson. „Þeir höfðu allir þennan heillandi Manchester hreim. Þetta var eins og atriði úr A Hard Day's Night. Þeir féllu bara inn í herbergið.“

„Ótrúlega auðmjúkir“

„Ég man að ég stóð á meðal áhorfenda og hugsaði með mér að þessir strákar hefðu hæfileikana til að verða næsta stóra bandið og að sagan af mér í búningsherberginu með þeim væri svöl saga til að eiga í framtíðinni. Ég hugsaði með mér að ég ætti eftir að muna eftir þessari nóttu.“

Þá segir hann að sveitin hafi reynt að kenna honum breskt slangur, á meðan hann reyndi að kenna þeim að segja „þú ert falleg“ á sænsku.

„Þeir voru ótrúlega auðmjúkir og þú gast séð að þeir voru að eiga bestu tíma lífs síns.“

Brúin yfir skurðinn í Södertälje.
Brúin yfir skurðinn í Södertälje. Ljósmynd/Sting verktakar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert