Skotin til bana á fyrsta degi í starfi

Guindon sést hér á milli samstarfsfélaga síns og yfirmanns.
Guindon sést hér á milli samstarfsfélaga síns og yfirmanns. mynd/Lögreglan í Prince William-sýslu

Bandarísk lögreglukona var skotin til bana á fyrsta degi hennar í starfi. Hún var aðeins 29 ára gömul.

Ashley Guindon hafði brugðist við útkalli vegna heimlisofbeldis í Woodbridge í Virginíu þegar hún var skotin. Tveir lögreglumenn til viðbótar særðust í árásinni og voru þeir fluttir á sjúkrahús. Ekki liggur fyrir hversu alvarlega þeir særðust. 

Árásarmaðurinn, sem er hermaður, er nú í haldi lögreglu. Hann slapp ómeiddur, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Maðurinn er grunaður um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana og þegar lögreglumenn komu á vettvang hóf maðurinn skothríð.

Lögreglan segir að barn hafi verið í húsinu þegar þetta gerðist. 

Skömmu áður en þetta gerðist hafði lögreglan í Prince William-sýslu birt mynd á Twitter þar sem greint er frá því að Guindon hefði hafið störf og var hún og samstarfsfélagi hennar hvött til að fara varlega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert