Biðlistar eftir borði í fangelsinu

Frá veitingastaðnum In Galera
Frá veitingastaðnum In Galera Tripadvisor

In Galera-veitingastaðurinn í Mílanó nýtur mikilla vinsælda sem ekki væri í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að hann er rekinn í Bollate-fangelsinu í úthverfi ítölsku borgarinnar. Allir starfsmennirnir, þjónar, kokkar og þeir sem þvo upp hafa verið verið dæmdir fyrir morð, vopnuð rán, eiturlyfjasmygl og aðra glæpi.

New York Times fjallar um þennan vinsæla veitingastað en þess má geta að In Galera þýðir í ítölsku slangri í fangelsi. Þegar blaðamaður og ljósmyndari NYT sóttu staðinn heim var þéttsetinn bekkurinn og er allt fullbókað út mánuðinn. Svo virðist sem Silvia Polleri, sem stýrir staðnum og á hugmyndina að stofnun hans, hafi hitt naglann á höfuðið.

Það er kannski ekki auðvelt að selja hugmyndina um að fá fólk til þess að fara í fangelsi af fúsum og frjálsum vilja en sú er raunin með In Galera. Hönnunin er nútímaleg og flott og veggirnir skreyttir með veggspjöldum þekktra fangelsisbíómynda, svo sem Flóttans frá Alcatraz með Clint Eastwood í aðalhlutverki. Ekki nóg með það: staðurinn fær 4,5 stjörnur af fimm mögulegum á Trip Advisor fyrir gæði. 

Fangelsismálayfirvöld á Ítalíu hafa árum saman glímt við yfirfull fangelsi og í janúar 2013 fyrirskipaði Mannréttindadómstóll Evrópu ítölskum yfirvöldum að gera úrbætur á fangelsismálum í landinu. 

Líkt og í öðrum fangelsum er eitt af helstu vandamálunum að láta fanga hafa eitthvað fyrir stafni. Bollate-fangelsið hefur verið framarlega í tilraunum á þessu sviði. Fangelsisstjórinn, Massimo Parisi, hefur komið á sambandi milli fanga og atvinnulífsins og þar er boðið upp á leiklistarkennslu og myndlist.

Óþarfa áhyggjur

Fangarnir reka hesthús innan fangelsismúranna og um 200 fangar, sem eru vandlega valdir, fá að fara út úr fangelsinu á hverjum degi til þess að stunda vinnu. Fangarnir nýta, án fylgdar, almenningssamgöngur til þess að komast til og frá vinnu. Aðeins einu sinni hefur fangi ekki skilað sér á tilsettum tíma og hann kom nokkrum dögum síðar „heim“, segir Parisi í viðtali við NYT.

Þegar Polleri, sem starfaði sem leikskólakennari í 22 ár áður en hún fór að reka veitingaþjónustu, kom með hugmyndina um að reka veitingastað í fangelsinu var fyrsta hugsun Parisis: Hverjir myndu koma á staðinn?

En það voru óþarfa áhyggjur líkt og fram kemur í ítarlegri grein New York Times sem hægt er að lesa í heild hér.

Hér má skoða matseðilinn o.fl.

 

 

In Galera - merki veitingastaðarins.
In Galera - merki veitingastaðarins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert