Trump og Clinton spáð sigri

Donald Trump og Hillary Clinton.
Donald Trump og Hillary Clinton. AFP

Kosið verður í forvali bæði demókrata og repúblikana í New York í dag en spár gera ráð fyrir að Hillary Clinton hafi sigur hjá demókrötum og Donald Trump hjá repúblikönum. 

Fram kemur í frétt AFP að Clinton hafi töluvert forskot á keppinaut sinn Bernie Sanders í New York jafnvel þó skoðanakannanir á landsvísu sýni lítinn mun á þeim. Trump sé að sama skapi með gott forskot á þá Ted Cruz og John Kasich.

Trump er sagður stefna á stóran sigur í New York, heimaríki sínu, til þess að reyna að tryggja að forysta Repúblikanaflokksins geti ekki neitað að útnefna hann forsetaefni flokksins á flokksþinginu í júlí.

Kjörstaðir opna klukkan 10:00 að íslenskum tíma og lokar klukkan eitt í nótt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert