Breivik vinnur mál gegn norska ríkinu

Anders Behring Breivik.
Anders Behring Breivik. AFP

Anders Behring Breivik hefur unnið mál sitt gegn norska ríkinu, en dómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að skilyrði fangelsisvistar hans brjóti gegn Mannréttindarsáttmála Evrópu.

Breivik hélt því m.a. fram að brotið hefði verið gegn þriðju grein sáttmálans þegar hann var látinn gangast undir líkamsleit, ítrekað vakinn á næturnar og látinn sæta einangrunarvist.

Dómstóllinn tók undir þessi sjónarmið.

Ríkið bar því við að þau skilyrði sem Breivik sætti væru nauðsynleg þar sem hann væri „afar hættulegur maður“.

Breivik hélt því einnig fram að ríkið hefði brotið gegn áttundu grein Mannréttindasáttmálans með því að stöðva bréfasendingar hans úr fangelsi, en lögmaður ríkisins sagði að fjöldamorðinginn hefði átt samskipti við aðra utan fangelsisins til að stofna „arískt“ tengslanet.

Ríkið var sýknað af þessum kærulið. Það var hins vegar dæmt til að greiða allan dómskostnað.

Málflutningur fór fram í fangelsinu í Skien í mars sl. Á fyrsta degi heilsaði Breivik að sið nasista og sagðist síðar þjóðernissósíalisti. Mesta athygli vöktu ummæli hans þess efnis að maturinn í fangelsinu væri verri en vatnspyntingar.

Aðilar hafa nú fjórar vikur til að taka ákvörðun um áfrýjun en lögmaður Breivik hefur sagt að hann sé tilbúinn til að fara með málið alla leið til mannréttindadómstólsins í Strassborg.

Breivik var dæmdur í 21 árs fangelsi í ágúst 2012 fyrir að hafa myrt 77 manns ári áður.

NRK sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert