Fiorina er varaforsetaefni Cruz

Fiorina og Cruz á sviði í kvöld.
Fiorina og Cruz á sviði í kvöld. AFP

Forsetaframbjóðandinn Ted Cruz tilkynnti nú í kvöld að hann hefði valið Carly Fiorina sem varaforsetaefni sitt. Við þetta tilefni kallaði hann Fiorina „staðfasta og hugrakka baráttukonu“ sem hefði „brotið glerþök trekk í trekk“.

Fiorina var upphaflega sjálf í framboði til forseta en dró sig fljótt úr keppninni um útnefningu repúblíkana. Hún er fyrrum framkvæmdastjóri tæknirisans Hewlett-Packard og hefur verið virkur stuðningsmaður Cruz síðustu mánuði.

Tilkynning Cruz er óvenjuleg enda fer val á varaforsetaefni vanalega ekki formlega fram fyrr en frambjóðandi hefur tryggt sér tilnefningu flokks síns. Það hefur Cruz ekki gert og hann er raunar ekki einu sinni með mest fylgi útfrá forkosningunum.

Innkoma Fiorina gæri þó hjálpað Cruz í baráttu hans gegn Donald Trump sem á að baki fjöldamörg óviðeigandi og niðrandi ummæli umkonur, þar á meðal um Fiorina sjálfa.

„Horfið á þetta andlit. Myndi einhver kjósa þetta? Getið þið ímyndað ykkur þetta sem andlit næsta forseta,“ sagði Trump um hana á sínum tíma. Fiorina svaraði því til að hún teldi að konur um allt land hefðu heyrt mjög greinilega hvað hann sagði.

Þegar Fiorina starfaði fyrir Hewlett-Packard rak hún 30 þúsund manns og var síðan sjálf rekin af stjórn fyrirtækisins þrátt fyrir að hafa að eigin sögn „bjargað“ fyrirtækinu. Hún á einnig að baki misheppnaða atrennu að öldungardeildarsæti Kaliforníu á Bandaríkjaþingi.

Þegar Fiorina ávarpaði áheyrendur á samkomu Cruz brast hún í söng. Hún söng um dætur Cruz og tíma þeirra saman í Cruz-rútunni.

„Donald Trump og Hillary Clinton eru tvær hliðar á sama teningnum,“ sagði hún og bætti við að Cruz ætti enn möguleika á að verða forseti, hvað svo sem „fjölmiðlar segja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert