Ken Livingstone vikið úr flokknum

Ken Livingstone hefur verið vikið tímabundið úr Verkamannaflokknum.
Ken Livingstone hefur verið vikið tímabundið úr Verkamannaflokknum. AFP/BEN STANSALL

Ken Livingstone, fyrrverandi borgarstjóra Lundúna, hefur verið vikið tímabundið úr Verkamannaflokknum fyrir að hafa haldið því fram að Hitler hefði stutt síonisma, „áður en hann varð brjálaður og myrti 6 milljón gyðinga“.

Ummælin lét Livingstone falla í viðtali við BBC London, þar sem hann kom þingmanninum Naz Shah til varnar, en síðarnefnda var vikið tímabundið úr flokknum eftir að hann „studdi“ Facebook-færslu þar sem lagt var til að Ísraelsmönnum yrði vísað úr landi.

Yfir 20 þingmenn, þeirra á meðal Sadiq Khan, borgarstjóraefni Verkamannaflokksins, höfðu kallað eftir því að Livingstone yrði vísað úr flokknum. Hann mun standa utanflokks þar til rannsókn hefur farið fram.

Samkvæmt Guardian gætir nú áhyggja meðal forystu Verkamannaflokksins, þar sem menn telja að umræðu um gyðinga-andúð sé beint gegn Jeremy Corbyn, leiðtoga flokksins. Livingstone virðist meðal þeirra sem eru á þessari skoðun.

„Í hreinskilni sagt þá hafa verið gerðar tilraunir til að sverta Jeremy Corbyn og samstarfsmenn hans með ásökunum um gyðinga-andúð frá því hann varð leiðtogi. Það er einföld staðreynd að það er réttur okkar að gagnrýna meðferð einnar vægðarlausustu stjórnar heims á Palestínumönnum,“ sagði Livingstone.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert