Ranghvolfdi hún augunum yfir Trump?

Mary Pat Christie (t.h. við Trump) undir sigurræðu Donalds Trump …
Mary Pat Christie (t.h. við Trump) undir sigurræðu Donalds Trump á þriðjudagskvöld. AFP

Heimsbyggðin er orðin vön fúkyrðaflaumi frá Donald Trump í baráttu hans til að verða forsetaframbjóðandi repúblikana. Margir ranghvolfdu engu að síður augunum yfir karlrembu sem hann sýndi Hillary Clinton á þriðjudagskvöld. Svo virðist sem að eiginkona eins helsta stuðningsmanns hans hafi verið ein þeirra.

Í sigurræðu sinni á þriðjudagskvöld þegar Trump hafði farið með sigur af hólmi í forvali flokksins í fimm ríkjum og færst nær markmiði sínu um að tryggja sér meirihluta kjörmanna fyrir flokksþing í sumar réðist hann harkalega að Hillary Clinton og kynferði hennar.

Fullyrti auðkýfingurinn að eina ástæðan fyrir því að Clinton væri að sigra í forvali demókrata væri sú staðreynd að hún væri kona. Sagði Trump að eina spilið sem hún hefði á hendi væri „konuspilið“.

„Ef Hillary Clinton væri karlmaður held ég að hún myndi ekki einu sinni fá fimm prósent atkvæða,“ sagði Trump sem hélt því einnig fram að konum væri illa við Clinton.

Mary Pat Christie, eiginkona Chris Christie, ríkisstjóra New Jersey og eins helsta stuðningsmanns Trump, stóð fyrir aftan frambjóðandann þegar hann lét þessi ummæli falla. Myndband af ræðunni hefur farið í mikla dreifingu á netinu en í því virðist frú Christie ranghvolfa augunum, líta í áttina að eiginmanni sínum og glotta örlítið. Margir hafa túlkað látbragð hennar sem vanþóknun á ummælum Trump.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Christie-hjónin stela senunni í ræðum Trump. Þegar Chris Christie lýsti yfir stuðningi við Trump í vetur fór myndband af honum sem eldur í sinu um netið. Þar sást hann heldur órólegur á svip á meðan hann sat undir ræðu frá Trump. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert