Vilja takmarka bótagreiðslur til borgara annarra ríkja

Andrea Nahles, atvinnumálaráðherra Þýskalands, kynnti umdeilt frumvarp um takmörkun á …
Andrea Nahles, atvinnumálaráðherra Þýskalands, kynnti umdeilt frumvarp um takmörkun á bótagreiðslum til ríkisborgara annarra ESB ríkja sem búsettir eru í Þýskalandi. ODD ANDERSEN

Þýskaland hefur lagt fram tillögur um að takmarka almannatryggingagreiðslur til íbúa annarra ESB ríkja í Þýskalandi, en stutt er síðan Bretar fengu samþykktar umdeildar takmarkanir á réttindum innflytjenda í breska velferðarkerfinu.  

Samkvæmt lagafrumvarpinu, sem lagt var fram af Andrea Nahles, atvinnumálaráðherra Þýskalands, þá ættu atvinnulausir íbúar ESB sem búsettir eru í Þýskalandi aðeins rétt á félagslegri aðstoð ef þeir hafa unnið a.m.k. fimm ár í Þýskalandi.  

Þeim sem ekki eiga rétt á þessum bótum, myndi standa til boða sérstök tímabundin neyðaraðstoð sem þeir gætu nýtt sér í fjórar vikur.

Á sama tíma gæti viðkomandi fengið lán til að borga fyrir flug aftur til heimalands síns þar sem hann gæti sótt um félagslega aðstoð.

Sú ákvörðun breskra stjórnvalda að lækka bætur hefur kallað á viðbrögð frá ríkisstjórnum ríkja í Austur Evrópu og í miðhluta álfunnar, sem segja aðgerðirnar settar fram til að mismuna þeim borgurum þeirra sem flust hafa til Bretlands.

Stjórnvöld í Berlín hafa lengi verið andsnúin því að koma á slíkum takmörkunum, en stjórnin breytti um stefnu eftir að dómstóll í Þýskalandi úrskurðaði að allir ESB íbúar, jafnvel þeir sem aldrei hefðu unnið í landinu, ættu rétt á bótum í Þýskalandi ef þeir væru búnir að búa í landinu í meira en sex mánuði.

Úrskurðurinn hefur vakið ótta um „bótatúrisma“ frá íbúum ESB ríkja þar sem lífsskilyrði eru verri en í Þýskalandi.

Þó ekki hafi orðið vart við fjölgun bótaumsókna, segist Nahels vilja loka á þennan möguleika á meðan að jafn mikill munur sé á almannabótum og launum og nú er.

Drögin að lagafrumvarpinu hafa mætt gagnrýni frá stjórnarandstöðunni, en Nahles segir frumvarpið vera í takt við lög ESB.  

„Ríkisborgarar allra þessara ríkja eiga rétt á félagslegri aðstoð frá eigin heimalandi og í samræmi við greiðslur þess ríkis,“ sagði hún.   Frumvarpsdrögin verða að hljóta stuðning ríkisstjórnarinnar áður en þau verða lögð fyrir þingheim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert