Tveir úr sama sveitarfélagi létust

Tveir þeirra þrettán sem létust í þyrluslysinu skammt frá Bergen í Noregi í gær eru úr sama sveitarfélaginu. Strand er lítið sveitarfélag og sveitarstjórinn segir að þar þekki allir alla.

Irene Heng Lauvsnes, sveitarstjóri Strand, segir að margir íbúanna vinni á olíuborpöllum Statoil. „Þegar við heyrðum af slysinu þá vorum við hrædd um að einhverjir héðan hefðu farist,“ segir hún í samtali við norska ríkissjónvarpið, NRK. Í ljós kom að tveir íbúar sveitarfélagsins eru meðal hinna látnu.

Þyrlan var á leið frá Norðursjó með verkamenn af borpalli er þyrluspaði hennar losnaði af og vélin hrapaði úr um 700 m hæð. Allir sem voru um borð, ellefu farþegar og tveir flugmenn, fórust.

„Þetta er erfitt fyrir marga, ekki bara okkur hér í Strand,“ segir Lauvsnes. „Ég finn mjög til með fjölskyldum og vinum hinna látnu.“

Lögreglan segir að nú sé unnið að því að bera kennsl á líkin. Það muni taka marga daga. „Við erum ekki enn viss um að við höfum funduð alla,“ segir Per Angel, frá sérstakri deild lögreglunnar sem sér um að bera kennsl á lík og líkamshluta.

Líkin voru illa farin enda sprakk þyrlan í loft upp við hrapið. Flak hennar liggur á 6-7 metra dýpi.

Björgunarmenn að störfum við flak þyrlunnar í gær.
Björgunarmenn að störfum við flak þyrlunnar í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert