Tvö smábörn hlekkjuð í garðinum

Móðir barnanna hefur verið ákærð og er í gæsluvarðhaldi.
Móðir barnanna hefur verið ákærð og er í gæsluvarðhaldi.

Lögreglan í San Antonio í Texas fann tvö smábörn hlekkjuð í bakgarði húss í borginni á fimmtudagskvöld. Lögreglumennirnir sem fóru í verkefnið segjast eiga erfitt með að lýsa því sem fyrir augu bar.

Annar lögreglumaðurinn segir að tveggja ára drengur hafi verið hlekkjaður við jörðina „eins og hundur.“ Keðjan hafi verið stutt. Hann var með girt niður um sig. „Það var augljóst að hann hafði verið þarna um tíma,“ sagði lögreglumaðurinn í samtali við CNN.

Skammt frá var svo þriggja ára gömul stúlka. Hún var hlekkjuð við hurð í hundaól. „Hún var algjörlega uppgefin,“ segir lögreglumaðurinn.

Lögreglumennirnir leystu börnin strax. En verkefnið var ekki búið, segir í frétt CNN, það sem beið þeirra inni í húsinu var ekki mikið skárra.

Innandyra voru sex börn á aldrinum 10 mánaða til þrettán ára. Enginn fullorðinn var á staðnum. Foreldrarnir komu ekki heim fyrr en undir morgunn.

Konan er sögð vera 34 ára og hafa borið ábyrgð á börnunum tveimur í garðinum. Hún hefur verið ákærð fyrir aðbúnað þeirra og er í gæsluvarðhaldi.

Lögreglan leitar enn foreldra barnanna í garðinum. Þau voru flutt á sjúkrahús til skoðunar og kom þá í ljós að leggja þurfti stúlkuna inn á gjörgæslu. Áverkar voru á báðum börnunum, m.a. var annað þeirra tvíbrotið á hendi.

Börnin sex, sem fundust inni í húsinu, hefur öllum verið komið fyrir hjá fósturfjölskyldum.

Barnaverndarnefnd í bænum segist aldrei hafa þurft að hafa afskipti af fjölskyldunni fyrr en talið er að foreldrarnir hafi rekið daggæslu.

Lögreglan hafði þó fengið símtal þetta kvöld og ákvað að fara að skoða hvað væri í gangi í húsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert