Par myrti konur í „hryllingshúsi“

Tveir lögreglumenn fyrir utan húsið þar sem hjónin fyrrverandi bjuggu.
Tveir lögreglumenn fyrir utan húsið þar sem hjónin fyrrverandi bjuggu. AFP

Þýskt par lokkaði konur inn í húsið sitt með aðstoð smáauglýsinga, hélt þeim svo föngnum og myrti að minnsta kosti tvær þeirra, samkvæmt þýsku lögreglunni.

Lögreglan hefur ekki útilokað að parið hafi myrt fleiri konur. Eitt dagblað lýsti húsi þess sem „hryllingshúsi“ en þar var lík annarrar konunnar bútað í sundur og brennt í arni.

46 ára maður, sem blaðið Bild Daily kallaði Wilfried W., og fyrrverandi eiginkona hans Angelika B, 47 ára, voru handtekin í síðustu viku grunuð um að hafa pyntað konu á tveggja mánaða tímabili.

Húsið þar sem hjónin fyrrverandi bjuggu.
Húsið þar sem hjónin fyrrverandi bjuggu. AFP

Bíllinn bilaði 

Þau náðust eftir að bíllinn þeirra bilaði með hina 41 árs konu í bílnum, illa særða. Hún lést nokkrum klukkustundum síðar á sjúkrahúsi vegna höfuðmeiðsla.

Að sögn saksóknara og lögreglunnar hefur konan sem grunuð er um verknaðinn játað að hafa myrt að minnsta kosti eina manneskju í viðbót og að hafa haldið fleiri konum föngnum á síðastliðnum árum.

Hitt fórnarlambið var 33 ára kona. Parið hafði geymt lík hennar í frysti og bútað svo niður og brennt í arni hússins. Konan lést í ágúst 2014 eftir að hafa þurft að þola pyntingar í húsinu, sem er í bænum Hoexter í vesturhluta Þýskalands.

AFP


Kennir konunni um morðin

„Við erum að leita að fleiri fórnarlömbum sem komust lífs af,“ sagði Ralf Oestermann, yfirmaður morðdeildar borgarinnar Bielefeld, sem annast rannsókn málsins.

Hann bætti við að maðurinn sem er einnig grunaður um morðin hafi neitað öllum ásökunum og segir að eiginkonan sín fyrrverandi hafi framið þau.

Hin grunuðu gengu í hjónaband árið 1999 en skildu árið 2013, sama ár og maðurinn kvæntist hinni 33 ára konu sem síðar dó.

Að sögn Oestermann misnotaði maðurinn eiginkonu sína fyrrverandi einnig illa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert