Sagði föður Cruz tengjast Oswald

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump hefur gefið í skyn að faðir Teds Cruz hafi verið með morðingja Johns F. Kennedy skömmu áður en forsetinn var myrtur. Cruz brást við með því að segja Trump „sjúklegan lygara“.

Báðir sækjast þeir eftir því að verða forsetaframbjóðandi repúblikana í kosningunum í nóvember.

Trump hélt þessu fram á kosningafundi í Indiana, þar sem hann vonast til að sigra sinn höfuðandstæðing í forskosningunum. Þar vísaði hann í frétt slúðurblaðsins National Enquirer um að faðir Teds Cruz, Rafael, hafi verið „með Lee Harvey Oswald“ skömmu fyrir morðið.

„Þetta er fáránlegt allt saman. Hvaða er þetta? Rétt áður en hann var skotinn og enginn minnist á þetta,“ sagði Trump í viðtali við sjónvarpsstöðina Fox.

„Ég meina, hvað var hann að gera – hvað var hann að gera með Lee Harvey Oswald rétt fyrir dauðann—fyrir skotárásina? Þetta er hræðilegt.“

Frambjóðandinn Ted Cruz er hneykslaður á ummælum Trump.
Frambjóðandinn Ted Cruz er hneykslaður á ummælum Trump. AFP

National Enquirer hefur áður birt fréttir þar sem Cruz hefur verið harðlega gagnrýndur. Í frétt blaðsins kemur fram að á ljósmynd sem var tekin 16. ágúst 1963 af Oswald í New Orleans að dreifa bæklingum til stuðnings Fidels Castro, fyrrverandi Kúbuleiðtoga, sjáist Rafael Cruz skammt frá.

Oswald var skotinn til bana 24. nóvember 1963, tveimur dögum eftir morðið á Kennedy.

Rafael Cruz var eitt sinn stuðningsmaður Castro en í ævisögu sinni A Time For Action sagðist hann ekki hafa vitað á þeim tíma að Castro væri kommúnisti.

Í frétt National Enquirer kom fram að engin sönnunargögn sýni að Cruz hafi verið í slagtogi með Oswald og að Cruz og kosningateymi hans segi að að faðir hans sé ekki á myndinni.

„Donald Trump heldur því fram að faðir minn hafi átt þátt í morðinu á JFK,“ sagði Cruz. „Við skulum hafa það á hreinu. Þetta er út í hött. Já, pabbi minn drap JFK, hann er Elvis í raun og veru og Jimmy Hoffa er grafinn úti í garði hjá honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert