Breivik fær ekki gjafsókn

Norska ríkið hafnar því að Breivik fái gjafsókn.
Norska ríkið hafnar því að Breivik fái gjafsókn. LISE ASERUD

Norska ríkið hefur hafnað því að fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik fái gjafsókn og að ríkið greiði lögfræðikostnað vegna málshöfðunar hans á hendur ríkinu.

Norskur dóm­stóll komst í síðasta mánuði að þeirri niður­stöðu að skil­yrði fang­elsis­vist­ar Breivik brjóti gegn þriðju grein Mann­rétt­ind­arsátt­mála Evr­ópu, þegar Breivik var lát­inn gang­ast und­ir lík­ams­leit, ít­rekað vak­inn á næt­urn­ar og lát­inn sæta ein­angr­un­ar­vist.

Dómstóllinn úrskurðaði einnig að ríkinu bæði að greiða lögfræðikostnað Breiviks, sem nam rúmum 300.000 norskum krónum, eða um 4,5 milljón íslenskra króna, þegar dómurinn féll.

Viku síður ákvað norski dómsmálaráðherrann Anders Anundsen að áfrýja dómnum og mun lögfræðikostnaður Breivik hækka með málaferlum fyrir hæstarétti. Spurningin um hver greiði kostnaðinn vaknar þá að nýju, segir í grein á fréttavef Aftenposten.   

Löngu áður en réttarhöldin hófust sótti Øystein Storrvik, lögfræðingur Breivik, um gjafsókn fyrir skjólstæðing sinn. Gjafsókn felur í sér að ríkið greiði lögfræðikostnað hins ákæra, óháð því hvernig sem dómurinn fellur. Meðal skilyrða fyrir gjafsókn eru að hinn ákærði geti ekki greitt fyrir lögfræðikostnað, málið hafi mikla persónulega þýðingu fyrir hann eða um sé að ræða prófmál sem geti haft mikla þýðingu.

Málaferli Breivik þykja uppfylla öll þessi skilyrði, en engu að síður er beiðni hans um gjafsökn hafnað. „Við höfum gefið ýtarlega skýringu á því af hverju við teljum ríkið eiga að greiða kostnaðinn. Ég er þó eiginlega ekki hissa á niðurstöðunni, þegar haft er i huga hvaða  mál þetta er,“ segir Storrvik í viðtali við Aftenposten.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert