Cruz heltist úr lestinni

Ted Cruz sorgmæddur á svip eftir að hafa þurft að …
Ted Cruz sorgmæddur á svip eftir að hafa þurft að lúta í gras fyrir Donald Trump. AFP

Auðjöfurinn Donald Trump er væntanlegur forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins eftir að eini hugsanlegi keppinautur hans, Ted Cruz, dró framboð sitt til baka í kjölfar afgerandi sigurs Trump í forvali flokksins í Indiana. Hjá demókrötum vann Bernie Sanders óvæntan sigur á Hillary Clinton.

Cruz viðurkenndi fyrir stuðningsmönnum sínum í Indianapolis að hann ætti enga mögulega á að hljóta útnefningu flokksins eftir að niðurstöður forvalsins í Indiana voru ljósar. Trump hlaut 53,3% atkvæða gegn 36,6% Cruz. John Casich hlaut aðeins 7,6% atkvæðanna.

„Við gáfum þessu allt sem við áttum en kjósendur völdu aðra leið,“ sagði Cruz en hann hafði fyrirfram lýst forvalinu í Indiana sem lokaorrustu sinni til að stöðva Trump.

Því er ljóst að Trump er í reynd væntanlegur forsetaframbjóðandi repúblikana. Eftir brotthvarf Cruz er Kasich eini keppinautur Trump en hann hefur ekki átt góðu gengi að fagna í forvalinu fram að þessu.

Trump var vígreifur eftir sigurinn og sagði stuðningsmönnum sínum í New York að nú myndi hann hjóla í Clinton.

„Við ætlum að vinna í nóvember og við ætlum að vinna stórt,“ fullyrti hann.

Kosningabaráttan hjá repúblikönum, sem hefur oft og tíðum verið á lágu plani, var sérstaklega andstyggileg í Indiana. Trump bendlaði föður Cruz, Rafael, við Lee Harvey Oswald, morðingja John F. Kennedy.

Í kjölfarið kallaði Cruz auðkýfinginn „lygasjúkan“.

„Maðurinn er algerlega siðlaus,“ sagði Cruz.

Krýningu Clinton frestað

Öldungadeildarþingmaðurinn Sanders kom öllum að óvörum og lagði Clinton í Indiana. Hann hlaut 52,5% atkvæða gegn 47,5% fyrrverandi utanríkisráðherrans.

„Framboð Clinton telur að þessari kosningabaráttu sé lokið. Það hefur rangt fyrir sér. Við erum í þessari kosningabaráttu til að vinna og við ætlum að berjast þar til síðasta atkvæðið hefur verið greitt“ sagði Sanders í yfirlýsingu.

Staðan í forvali demókrata þegar kosið hefur verið í 44 ríkjum er sú að Clinton hefur sigrað í 25 ríkjum og landsvæðum og hefur 2.217 kjörmenn. Sanders hefur hins vegar sigrað í 19 ríkjum og hefur 1.443 kjörmenn.

Frambjóðendur þurfa að ná 2.382 kjörmönnum til að tryggja sér útnefningu flokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert