Þrá að hafa tilgang

Ungir sýrlenskir drengir við rústir húss í Homs.
Ungir sýrlenskir drengir við rústir húss í Homs. AFP

Fjárhagsvandræði, þrá til þess að hafa einhverskonar tilgang og hefnd eru helstu ástæður þess að ungir Sýrlendingar ganga til liðs við samtök íslamista. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn aðgerðarsinna hópsins International Alert. Við gerð rannsóknarinnar voru tekin viðtöl við 311 Sýrlendinga, fjölskyldur þeirra og vini í Sýrlandi, Líbanon og Tyrklandi.

Í rannsókninni kemur fram að karlar á aldrinum 12 til 24 ára eru líklegastir til þess að ganga til liðs við öfgasamtök eins og Ríki íslams og sýrlenska bandamenn Al-Qaeda, Al-Nusra front.

Það eru þó ekki öfgaskoðanir hópanna sem heilla ungu Sýrlendingana heldur „þörf til þess að vinna fyrir sér, hafa tilgang og sú trú á skyldu þeirra til þess að vernda, hefna og verja.“

Sögðu ungu Sýrlendingarnir að með því að ganga til liðs við öfgasamtök fundu þeir fyrir sterkri tilfinningu um að þeir hefðu tilgang og þar að auki jókst sjálfsmat þeirra.

„Líf fólks fær aðra merkingu eftir að það gengur til liðs við öfgasamtök. Þau opna dyr að nýju lífi þar sem einhver vill þau,“ sagði einn viðmælandi rannsakenda.

Að mati ungra barna býður aðild að öfgasamtökum þeim tækifæri til þess að tilheyra hópi jafnaldra sem stríðið í landinu hefur neitað þeim um. Rúmlega tvær milljónir barna hafa þurft að hætta í skóla vegna stríðsins í Sýrlandi og Ríki íslams og Al-Nusra hafa verið að „fylla í skarðið“ sem skólarnir skildu eftir sig með því að veita börnunum „þeirra eigin gerð af skóla,“ segir í rannsókninni.

Til þess að koma í veg fyrir það að fleiri börn ganga til liðs við samtökin hvöttu niðurstöður rannsóknarinnar til þess að þau lönd sem taki á móti sýrlenskum flóttamönnum leggi áherslu á að koma börnunum í skóla og veita þeim andlegan stuðning og áfallahjálp.

Þá sagði jafnframt að með því að veita fólki betri lífsskilyrði, aðgang að jákvæðum hópum og stofnunum væri hægt að minnka áhuga fólks á öfgasamtökum. „Ef það væri ekki fyrir þetta starf væri ég einhversstaðar á víglínunni með Kalsahnikov riffil,“ sagði einn Sýrlendingur sem starfar við friðarstörf í Líbanon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert