Stefnir í sigur Khan

Stuðningsmenn Khan taka sjálfsmynd með borgarstjóraefninu.
Stuðningsmenn Khan taka sjálfsmynd með borgarstjóraefninu. AFP/NIKLAS HALLE'N

Útlit er fyrir að Sadiq Khan, borgarstjóraefni Verkamannaflokksins og sonur strætóbílstjóra frá Pakistan, verði fyrsti múslimski borgarstjóri evrópskrar höfuðborgar. Lundúnarbúar gengu til kosninga í dag, og kannanir benda til þess að Khan hafi 12-14 prósentustiga forskot á helsta keppinaut sinn.

Kosningabaráttan í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna hefur verið hörð, en Khan hefur m.a. neyðst til að stíga fram og neita því að hann sé stuðningsmaður íslamskra öfgaafla. Þá hefur borgarstjóraefni Íhaldsflokksins, milljarðamæringurinn og náttúruverndarsinninn Zac Goldsmith, neitað ásökunum um að notfæra sér trúarfordóma kjósenda.

Helstu kosningamálin hafa þó verið húsnæðis- og samgöngumál.

„Hvað stóru málin varðar virðast allir segja það sama, allir vilja auknar samgöngur og húsnæði á viðráðanlegu verði,“ sagði Thomas Bramall, 27 ára, í samtali við AFP. Hann sagðist ekki sjá mikinn mun á frambjóðendunum.

„Múslimi eða ekki múslimi... það skiptir ekki máli fyrir samfélagið,“ segir hinn 57 ára Koyruz Zoman. „Hver svo sem hlýtur embættið; við viljum að hann standi við gefin loforð.“

Goldsmith sækir kjörfund í Lundúnum í dag.
Goldsmith sækir kjörfund í Lundúnum í dag. AFP/BEN STANSALL

Með ólíkan bakgrunn

Auk borgarstjórnarkosninganna fara fram héraðskosningar í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi í dag. Þær þykja prófraun fyrir Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, en flokkurinn hefur verið dreginn inn í deilur um gyðingaandúð síðustu vikur.

Léleg niðurstaða yrði olía á eld þeirra afla innan flokksins sem vilja Corbyn úr leiðtogasætinu.

Kosningarnar eru þó ekki síður mikilvægar fyrir David Cameron forsætisráðherra, þar sem hann glímir við djúpstæðan ágreining innan Íhaldsflokksins um aðild Bretlands að Evrópusabamdninu.

Hvað borgarstjórnarkosningarnar varðar berjast tólf um stólinn, en allt bendir til þess að hin raunverulega barátta sé á milli Khan og Goldsmith. Úrslitin kunna að velta á kosningaþátttöku.

Bakgrunnur mannanna tveggja er afar ólíkur; Khan ólst upp í félagshúsnæði og starfaði sem mannréttindalögfræðingur áður en hann hóf þátttöku í pólitík, en Goldsmith er sonur fjármagnsjöfursins James Goldsmith.

Tilraunir hafa verið gerðar til að tengja Khan við öfgamenn en hann hefur kallað þær „örvæntingarfullar“. David Cameron ítrekaði þessi meintu tengsl síðast í gær, þar sem hann sakaði Khan um ákveðið hegðunarmynstur með því að birtast ítrekað við hlið fólks á borð við Sajeel Shahid, „mannsins sem þjálfaði skipuleggjanda 7/7 árásanna“, þ.e. hryðjuverkaárásanna í Lundúnum 7. júlí 2005.

Kjörstöðum verður lokað klukkan 21 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert