Tveir látnir í skógareldunum í Alberta

Íbúar sem flúið hafa skógareldana koma sér fyrir í fjöldahjálparmiðstöð …
Íbúar sem flúið hafa skógareldana koma sér fyrir í fjöldahjálparmiðstöð í Lac la Biche, smábæ í nokkurri fjarlægð frá borginni. COLE BURSTON

Tveir hafa látist af völdum skógareldanna, sem ógna borginni Fort McMurray og neyðarástandi hefur verið lýst í Al­berta-fylki í Kan­ada. All­ir íbú­ar borgarinnar, sem eru 88.000 tals­ins, hafa flúið heim­ili sín og hafa yfirvöld varað við því að næsti sólarhringur kunni að ráða úrslitum um það hvort öll borgin verði eldinum að bráð.

Alls hafa um 100.000 manns nú flúið eldana, sem sumir hafa kosið að kalla „Skepnuna“. Fjöldi þeirra sem flúið hafa dvelja nú í fjöldahjálparmiðstöð í smábænum  Lac La Biche, sem er í nokkurra klukkutíma fjarlægð frá Fort McMurray.

Að sögn fréttavefjar Guardian berjast nú um 1.100 slökkviliðsmenn við að ráða niðurlögum 49 skógarelda í fylkinu og er eldurinn talinn ná yfir um 85.000 hektara lands.

Rýming var fyrirskipuð í tveimur öðrum bæjum í Alberta, High Level,  sem er um 350 km frá Fort Murray og þar sem um 4.000 manns búa og Lac Ste Anne, byggðarlagi með nokkur hundruð íbúa, sem er um 100 km austur af Edmonton, höfuðborg Alberta fylkis. Rýming Lac Ste Anne var þó síðar afturkölluð.

„Eldurinn er gjöreyðandi,“ sagði Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. „Þetta er missir sem mörg okkar eiga erfitt með að ímynda okkur.“

Brottflutningurinn frá Fort McMurray hófst af alvöru rétt fyrir miðnætti sl. þriðjudag, þegar björgunarsveitir Alberta fyrirskipuðu rýmingu borgarinnar.  En myndir sem birtar hafa verið frá brottrýmingunni á Fort McMurray hafa sýnt langar bílaraðir með þykkt reykhafið í bakgrunni.

Eldurinn hefur farið yfir um 10.000 hektara lands og eyðilagt …
Eldurinn hefur farið yfir um 10.000 hektara lands og eyðilagt um 2.000 heimili í ytri byggðum Fort McMurray. LYNN DAINA

„Þetta er mjög hættuleg staða“

Melissa Blake, borgarstjóri Fort McMurray sagði spár um skógareldana ekki bara hafa ræst, heldur hefði ástandið orðið mun verra en menn áttu von á.

„Þetta er mjög hættuleg staða,“ hefur AFP fréttastofan eftir Bernie Schmitte, landbúnaðarráðherra Alberta fylkis.  Eldurinn hefur eyðilagt um 2.000 heimili í ytri byggðum borgarinnar og hafa 70% húsa í Beacon Hill hverfinu eyðilagst í eldinum og 90% húsa í Waterways hverfinu.

Schmitte ítrekaði að næsti sólarhringur skipti sköpum og hvatti íbúa til að vera um kyrrt þar sem þeir væru staddir svo vegir væru greiðir fyrir slökkviliðsveitir sem berjast við eldana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert