Falla í dá þegar sólin sest

Þegar kvöldar missa drengirnir allan mátt og falla í dá.
Þegar kvöldar missa drengirnir allan mátt og falla í dá. AFP

Læknar í Pakistan eiga engin svör við einkennum sem hrjá tvo bræður og lýsa sér með þeim hætti að á daginn hegða drengirnir sér eins og heilbrigð börn en um leið og sólin sest falla þeir í dá og geta hvorki hrært sig né tjáð.

Bræðurnir eru Shoaib Ahmed 13 ára og Abdul Rasheed 9 ára.

Javed Akram, prófessor við Institute of Medical Sciences, segist ekki hafa hugmynd um hvað veldur ástandi þeirra.

„Við tókum þetta mál að okkur sem áskorun. Læknar okkar vinna að rannsóknum til að komast til botns í því hvers vegna þessi börn eru virk á daginn en geta ekki opnað augun, talað eða borðað þegar sólin sest,“ segir hann.

Fjölskylda bræðranna er fátæk en ríkið hefur staðið straum af kostnaði vegna umönnunnar þeirra. Þeir hafa gengist undir umfangsmiklar rannsóknir í Islamabad og blóð úr þeim verið sent erlendis til prófunar.

Þá hafa rannsakendur safnað jarðvegs- og loftsýnum í þorpi fjölskyldunnar.

Mohammad Hashim, faðir drengjanna, á rætur sínar að rekja til þorps nærri Quetta, sem er höfuðborg Baluchistan. Hann og eiginkona hans eru systkinabörn og tvö af sex börnum þeirra dóu ung. Systkini bræðranna sem enn eru á lífi sýna ekki sömu einkenni og þeir.

Kenning Hashim um hvað hrjáir syni hans er einföld: „Ég held að synir mínir fái orku frá sólinni.“

Læknar hafa hins vegar útilokað að sólarljós eigi þátt að máli, m.a. vegna þess að bræðurnir hegða sér eðlilega jafnvel þótt þeir séu í myrku rými.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert