Trump styður „Brethvarf“

Bretlandi er betur borgið utan Evrópusambandsins að mati Donalds Trump, væntanlegs forsetaframbjóðanda repúblikana í Bandaríkjunum. Hann kennir ESB um flóttamannastrauminn til álfunnar sem hann segir hafa verið hræðilegan fyrir Evrópu.

Í viðtali við Fox News sagðist Trump þekkja Bretland vel og þar hefði hann margar fjárfestingar. Sagðist hann vilja að Bretar tækju sína eigin ákvörðun um aðild sína að Evrópusambandinu.

„Ég myndi segja að Bretlandi sé betur borgið án Evrópusambandsins persónulega en ég er ekki að leggja það til, það er bara mín tilfinning,“ sagði Trump sem svo gott sem tryggði sér útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaframbjóðandi hans eftir að Ted Cruz og John Kasich drógu framboð sín til baka í vikunni.

Sagðist hann telja að fólksflutningarnir hafi verið „hræðilegur hlutur“ fyrir Evrópu og „mikið af því var rekið áfram af ESB“.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í síðasta mánuði að Bretar myndu fara aftast í röðina eftir viðskiptasamningum við Bandaríkin ef þeir segja sig úr Evrópusambandinu. Bretland væri upp á sitt besta þegar það hjálpaði til að leiða sterkt samband Evrópuríkja. Aðild að sambandinu gerði landið að stærri leikanda á alþjóðlega sviðinu.

Tilfinning Donalds Trump er að Bretar eigi að segja sig …
Tilfinning Donalds Trump er að Bretar eigi að segja sig úr Evrópusambandinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert