Verður endanleg niðurstaða

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Hvort sem Bretar kjósa að yfirgefa Evrópusambandið eða vera áfram innan þess í fyrirhuguðu þjóðaratkvæði í Bretlandi 23. júní í sumar verður niðurstaðan endanleg. Þetta sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í dag.

Haft er eftir Cameron á fréttavefnum Euobserver.com að um væri að ræða kosningu sem yrði ekki endurtekin næstu áratugina. Ummælin voru viðbrögð við þeim orðum Nigels Farage, leiðtoga Breska sjálfstæðisflokksins, að ef áframhaldandi vera í Evrópusambandinu yrði samþykkt með naumum meirihluta gæti það kallað á annað þjóðaratkvæði.

Skoðanakannanir benda til þess að mjög mjótt verði á mununum í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Niðurstöður þeirra eru mjög misvísandi. Sumar sýna þannig meirihluta fyrir áframhaldandi veru í sambandinu en aðrar meirihluta fyrir því að segja skilið við það.

Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins.
Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert