Frelsisflokkurinn „sterkari en nokkru sinni“

Frambjóðandi Frelsisflokksins Norbert Hofer (t.v.) og formaður flokksins, Heinz Christian …
Frambjóðandi Frelsisflokksins Norbert Hofer (t.v.) og formaður flokksins, Heinz Christian Strache (t.h.) takast í hendur á fréttamannafundi í Vín í dag. AFP

Austurríski Frelsisflokkurinn (FPOe) er „sterkari en nokkru sinni“ og er tilbúinn að vinna næstu þingkosningar, hefur AFP-fréttastofan eftir Heinz-Christian Strache, formanni flokksins. En Norbert Hofer, forsetaframbjóðandi Frelsisflokksins, tapaði með naumindum fyrir Alexander Van der Bellen sem studdur var af græningjum, í forsetakosningunum nú um helgina.    

Strache hefur ekki útilokað að úrslit kosninganna verði dregin í efa og sagði hann að flokkurinn væri nú að kanna fullyrðingar sem flokksfélagar hafa látið falla á samfélagsmiðlum um að kosningareglur hafi verið brotnar.

„Það eru nýir tímar í stjórnmálum í Austurríki. Við erum þegar búin að rita nafn okkar nokkrum sinnum í sögubækurnar og erum sterkari en nokkru sinni fyrr,“ sagði Strache. Hefði Hofer farið með sigur af hólmi í kosningunum hefði hann verið fyrsti forseti Evrópuríkis sem aðhyllist öfgahægristefnu og andúð á innflytjendum.

Alexander Van der Bellen marði nauman sigur á Hofer, er hann hlaut 50,3% atkvæða á móti 49,7% atkvæða Hofers.  Vakti sigur Van der Bellen í gær létti meðal margra stjórnmálamanna á miðjunni, en fulltrúar öfgahægriflokka hafa hins vegar sagt vinsældir Hofers vísi um það sem í vændum sé.

Strache sagði á fréttamannafundi í gær „að hver sá sem túlkaði úrslitin eins og fjölmiðlar í gær …. sem ósigur, hefðu einfaldlega ekki skilið kosningarnar“.  

„Ég mun gera allt sem sem ég get til að tryggja að Frelsisflokkurinn fái meira en þriðjung atkvæða í næstu þingkosningum. Það verður ekki hægt að halda okkur frá því að taka þátt í stjórnarsamstarfi,“ sagði Hofer.

Þingkosningar fara næst fram í Austurríki 2018 og benda skoðanakannanir til þess að ef gengið væri til kosninga nú fengi flokkurinn rúmlega 30% atkvæða en miðjuflokkarnir tveir héldu ekki þingmeirihluta.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert