Kallar biskupa „hórusyni“

Rodridgo Duterte, nýr forseti Filippseyja, er umdeildur maður.
Rodridgo Duterte, nýr forseti Filippseyja, er umdeildur maður. AFP

Nýkjörinn forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, hefur uppi stór orð um kaþólsku kirkjuna í landinu. Biskupa segir hann „hórusyni“ sem beri ábyrgð á mikilli fólksfjölgun. „Ekki atast í mér,“ segir Duterte við þjóna kirkjunnar sem hafa gagnrýnt hann og telur kjör sitt sýna að hann hafi meiri völd en þeir.

Duterte gaf Frans páfa sömu einkunn og biskupunum þegar hann kom í opinbera heimsókn til Filippseyja í fyrra og olli umferðaröngþveiti þegar hann fór um höfuðborgina Manila. Skömmu fyrir kosningarnar gaf biskupaþing kirkjunnar út bréf þar sem kjósendur voru hvattir til að hafna siðferðislega ámælisverðum frambjóðendum án þess að nefna Duterte á nafn.

Á blaðamannafundi á sunnudag skaut Duterte hins vegar til baka og sagðist meðal annars ætla að ögra kirkjunni, sem 80% landsmanna tilheyra, með því að stórauka áherslu á að takmarka stærð fjölskyldna. Kaþólska kirkjan hefur verið á móti því að yfirvöld dreifi getnaðarvörnum og fræði almenning um hvernig eigi að skipuleggja fjölskyldur.

„Það er tími til kominn að tala skýrt út á milli okkar. Þið hafið verið að hirta mig, gagnrýna mig,“ sagði Duterte við fréttamenn um kaþólsku kirkjuna. Þá kallaði hann biskupana „hórusyni“ og sakaði þá um að vera spillta hræsnara. Hann myndi ljóstra upp um syndir þeirra.

Forsetinn ætlar leggja aukinn þunga í verkefni stjórnvalda um að dreifa getnaðarvörnum þegar hann tekur við embætti 30. júní. Hann vill að hver fjölskylda eignist að hámarki þrjú börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert