Segir sprengingu „rökréttu útskýringuna“

Franskur sjóliði tekur þátt í leitinni að braki vélarinnar.
Franskur sjóliði tekur þátt í leitinni að braki vélarinnar. AFP

Egypskur réttarrannsóknarmaður segir í dag að þær líkamsleifar sem hafa fundist úr farþegaþotu EgyptAir, sem hrapaði í síðustu viku, gefi til kynna að sprenging hafi átt sér stað í þotunni áður en hún hrapaði í hafið. Bandarískur sérfræðingur segir þó erfitt að taka mark á staðhæfingum þeirra sem hafa neitað að koma fram undir nafni. 

Í frétt AP-fréttastofunnar er því haldið fram að egypski sérfræðingurinn hafi verið hluti af rannsóknarteymi flugslyssins og skoðað tugi líkamsleifa sem fundist hafa.

„Það er hvergi heill líkamspartur eftir, eins og handleggur eða höfuð,“ sagði maðurinn í samtali við AP en neitaði að koma fram undir nafni. „Rökrétta útskýringin er sú að það hafi orðið sprenging.“

Ef kenning réttarrannsóknarmannsins fæst staðfest yrði það fyrsta sönnun þess að það hafi verið sprenging sem varð til þess að þotan, sem var af gerðinni Airbus A320, hrapaði skömmu áður en hún átti að lenda í Kaíró aðfaranótt fimmtudags.

Mark Rosenker, fyrrverandi formaður Samgönguráðs Bandaríkjanna (NTSB), leggur þó áherslu á, í samtali við CBS, að það þurfi að taka öllum kenningum með fyrirvara, sérstaklega þegar að heimildarmennirnir koma ekki fram undir nafni. „Þar til við fáum fólk til að koma fram undir nafni vitum við ekki hvað er í gangi,“ sagði Rosenker.

Talið er að allir þeir 66 sem voru um borð hafi látið lífið þegar þotan hrapaði. Egypskir embættismenn hafa sagt líklegra að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða en tæknibilun.

Franskt herskip er nú komið á leitarsvæðið í Miðjarðarhafinu til þess að hjálpa við leitina að flugritunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert